Innlent

Stjórnarsáttmálinn sagður langur texti um lítið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Formennirnir þrír þegar þeir kynntu sáttmálann í gær.
Formennirnir þrír þegar þeir kynntu sáttmálann í gær. vísir/eyþór

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna, undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, er tekin við. Stjórnarsáttmáli var undirritaður í gær. Ekki eru þó allir hrifnir af stjórnarsáttmálanum og höfðu þeir stjórnarandstöðuleiðtogar sem Fréttablaðið ræddi við skiptar skoðanir á honum. 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Anton Brink

Gagnrýnir forgangsröðun nýrrar stjórnar
„Ég hef nú sjaldan séð svona langan texta um lítið,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Logi telur mörg ágætis mál vera í stjórnarsáttmálanum, en hann einkennist mikið af því að menn ætli að skoða möguleika, leita leiða og hefja samráð.

„En það sem mér finnst merkilegt er forgangsröðunin. Ég held að það segi beint að eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar verði að bregðast við vanda sauðfjárbænda en síðan segir síðar í sama sáttmála að það verði að gera úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna og barna í samfélaginu og grípa svo til aðgerða. Það er alveg ljóst að það eru vel þekktar aðgerðir sem væri hægt að ráðast í strax,“ segir Logi. Þar nefnir hann auknar vaxtabætur, hækkun barnabóta, meiri húsnæðisstuðning og skattkerfi sem leiði til jöfnunar.

„Í staðinn eru einu skattkerfisbreytingarnar sem eru boðaðar lækkun á neðra þrepinu.“ Það séu sárafáir aurar fyrir þá sem lægstu launin hafa en miklu meira fyrir hina.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Vísir/Ernir

Frjálslyndasta stjórn sögunnar að kveðja
„Sú ríkisstjórn sem kvaddi í dag er að mínu mati frjálslyndasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar. Núna er að taka við ríkisstjórn sem kemur öðruvísi að málum og það er ekkert óeðlilegt með þessa flokka,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn VG, hafa gagnrýnt sáttmálann fyrir það hve líkur hann er sáttmála fyrri stjórnar. Þorgerður er ósammála þessari skoðun þingmannanna.

„Ég vil til dæmis draga það fram að umhverfiskafli síðustu ríkisstjórnar var mun ítarlegri en sá sem nú er. Það er enginn metnaður í alþjóðasamstarfi þessarar nýju ríkisstjórnar,“ segir hún.

Þorgerður leggur áherslu á að ný ríkisstjórn fái tækifæri til að sanna sig án þess að allt sé dregið niður.

„Það er margt fínt í stjórnarsáttmálanum sem hægt er að taka undir en annað sem vekur ákveðna furðu, þriðja að það eru ákveðnir þættir sem eru einfaldlega ekki nefndir.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Vísir/Anton

Óskar Katrínu til hamingju með áfangann
„Í fyrsta lagi óska ég náttúrlega Katrínu Jakobsdóttur til hamingju með þennan áfanga. Þetta er mikill persónulegur áfangi fyrir hana að ná þessu saman,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. „

En hvað varðar stjórnarsáttmálann, þá varð ég fyrir verulegum vonbrigðum með það hvað hann er einhvern veginn gjörsamlega eins og spáð hafði verið fyrir um.“

Sigmundur segir mikla áherslu setta á alls konar starfshópa og umræðuhópa en á engan hátt sé verið að nýta þessi stóru einstöku tækifæri sem nú gefast en komi ekki aftur.

„Ég er að tala um hluti eins og endurskipulagningu fjármálakerfisins, byggingu nýs Landspítala. Þarna á bara að festa gamla kerfið í sessi. Byggja áfram á Hringbraut og koma í veg fyrir möguleika á að endurskoða það. Varðandi fjármálakerfið þá virðist stefnan vera að hugsanlega móta stefnu á næsta ári eftir umræðu um einhverja hvítbók. Þetta er því allt í stíl við það sem maður óttaðist. Þetta verður kerfisstjórn.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.