Fótbolti

Vandræðalegt víkingaklapp í Katar

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Víkingaklappið heppnast alltaf vel á Laugardalsvelli.
Víkingaklappið heppnast alltaf vel á Laugardalsvelli. Vísir/Vilhelm
Jo Gasiorowska, fréttamaður Al Jazeera, mætti á æfingasvæði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í Katar í vikunni og fékk þá Kára Árnason, Ara Frey Skúlason og Theódór Elmar Bjarnason til að svara spurningum aðdáenda víðsvegar um heim.

Spurningarnar voru af öllum toga.

Þar á meðal voru þeir spurðir hvaða lið þeir vilja forðast að mæta á HM næsta sumar og hvort að heimsfrægð landsliðsins hafi haft einhver áhrif á líf þeirra.

Kári sagðist ekki vilja mæta Þýskalandi og Brasilíu. Ástæðan sem hann gaf var einföld. Hann vill ekki lenda í því að vera niðurlægður á fótboltavellinum þegar að allur heimurinn er að horfa á. Þá sögðust stárkarnir kippa sér lítið upp við frægðina sem hefur fylgt góðu gengi landsliðsins.

Strákarnir voru einnig spurðir hvort það væri satt að það sé enginn Mcdonalds staður á Íslandi og hvort þeir færu á Mcdonalds í æfingar- og keppnisferðum ef svo væri.

Svarið var stutt og laggott, nei. Greinilegt að landsliðsmennirnir sakna ekki gamla Mcdonalds staðarins í Skeifunni.

Að lokum barst talið að sjálfsögðu að víkingaklappinu víðfræga og sýndi Jo strákunum myndband af tilraun fréttamanna Al Jazeera við að taka víkingaklappið.

Skoraði þessi tilraun þeirra ekki hátt hjá landsliðsmönnunum okkar, sem gáfu fréttamönnum Al Jazeera 5 í einkunn af 10 mögulegum.

Viðtalið má sjá hér fyrir neðan.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×