Erlent

Búa sig undir að Brexit-viðræðurnar sigli í strand

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Michel Barnier segir alla þurfa að vera búnir undir það að viðræðurnar sigli í strand.
Michel Barnier segir alla þurfa að vera búnir undir það að viðræðurnar sigli í strand. Vísir/AFP
Michel Barnier, helsti samningamaður Evrópusambandsins, býr sig nú undir að viðræður við Breta um útgöngu þeirra úr sambandinu kunni að fara í vaskinn.

Þetta kom fram í máli Barniers við franska blaðið Le Journal du Dimanche sem ræddi við blaðið skömmu eftir að hafa gefið Bretum tveggja vikna frest til að skerpa á afstöðu sinni til nokkurra grunnágreiningsefna.

Samningamaðurinn vonar að komist verði að niðurstöðu. Það væri ekki æskilegt ef viðræðurnar færu út um þúfur. Aðspurður um hverjar líkurnar á því kynnu að vera svaraði Barnier: „Það er ekki mín draumaniðurstaða en það er möguleiki. Allir þurfa að búa sig undir það; jafnt aðildarríki sem fyrirtæki. Við erum líka að búa okkur undir það. Ef viðræðurnar klikka mun það hafa afleiðingar á mörgum sviðum.“

Sjá einnig: Theresa May orðin völt í sessi

Brexitmálaráðherra Breta, David Davis, hefur haldið því statt og stöðugt fram að nú sé tíminn fyrir semjendur að vinna sameiginlega að lausn. Hann hélt því að sama skapi fram á föstudag að góður gangur væri í viðræðunum en að eftir stæðu „fá en veigamikil ágreiningsefni.“ Eitt þeirra eru fjárhagslegar skuldbindingar Breta við sambandið en Davis hefur gefið misvísandi svör í þeim efnum eins og fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.

Í samtali við Sky News í gær sagði Davis: „Í öllum samningaviðræðum reyna semjendur að ná yfirráðum yfir tímaáætluninni. Raunverulegi eindagi þessara viðræðna er, eins og vitað er, í desember.“

Vísaði hann þar til fundar leiðtogaráðs Evrópusambandsins sem haldin verður í Brussel í lok árs.


Tengdar fréttir

Theresa May orðin völt í sessi

Fjörutíu þingmenn breska Íhaldsflokksins hafa nú lýst því yfir að þeir hafi misst tiltrú á að Theresa May sé rétta manneskjan til að leiða flokkinn og landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×