Innlent

Ásmundur biður Rauða krossinn afsökunar: Segist hafa verið argur og þreyttur

Birgir Olgeirsson skrifar
Ásmundur Friðriksson  segir síðustu tvo daga hafa verið sér þunga í skauti.
Ásmundur Friðriksson segir síðustu tvo daga hafa verið sér þunga í skauti. vísir/vilhelm
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur beðið Rauða krossinn og starfsfólk hans afsökunar á ummælum sínum í Fréttablaðinu í dag. 

Þar neitaði Ásmundur að upplýsa hversu mikið hann fékk greitt fyrir akstur sem þingmaður og sagði að fréttamenn væru ekki að spyrja hvað lögfræðingar Rauða krossins eru að fá fyrir að senda bréf til innanríkisráðuneytisins vegna hælisleitenda. 

Ásmundur segir í færslu sem hann birti í kvöld á Facebook að síðustu dagar hafi verið honum þungir í skauti og að hann hafi verið illa fyrirkallaður þegar blaðamaður Fréttablaðsins hafði samband við hann. 

„Viðtal sem ég átti ekki að taka undir þeim kringumstæðum, argur og þreyttur. Það var ávísun á vonda útkomu og ég bið Rauða krossinn og starfsfólk hans afsökunar á orðalagi sem aldrei átti að vera og stofnunin átti ekki skilið. Fer ekki í frekari útskýringar á því eða umkenningarleik,“ skrifar Ásmundur. 

Stjórn Oddfellowreglunnar á Íslandi sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem greint var frá því að Ásmundur hefði farið fram á að láta af embætti sem varastórsírs reglunnar af persónulegum ástæðum. 

Erindi Ásmundur var tekið fyrir á fundi stjórnarinnar í dag en í færslunni sem hann birtir í kvöld segist hann hafa stigið þung skref sem hann þurfti að stíga. „En vonandi fennir fljótt í þau spor og það birti að nýjum degi með nýjum tækifærum,“ skrifar Ásmundur. 

Hann segist vera mannlegur og breiskur maður sem geri mistök. „En get líka beðið afsökunar á þeim eins og ég geri nú. Ég vona að það birti á nýjum degi og hann lygni eftir storminn.“

Ekki náðist í Ásmund í kvöld vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×