Fótbolti

Kolbeinn Sigþórs hleypur verkjalaus | Heimir um möguleika hans á sæti í HM-hópnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson fagnar sigurmarki sinu á móti Englandi á EM 2016.
Kolbeinn Sigþórsson fagnar sigurmarki sinu á móti Englandi á EM 2016. Vísir/Getty
Kolbeinn Sigþórsson er byrjaður að æfa á nýjan leik eftir að hafa verið í langan tíma frá vegna meiðsla.

Landliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson var spurður út í Kolbein á blaðamannafundi í dag þar sem að hann tilkynnti landsliðshóp fyrir æfingamót í Katar seinna í þessum mánuði.

Kolbeinn hefur ekkert spilað með íslenska landsliðinu síðan í átta liða úrslitunum á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016.

Heimir treysti sér ekki til að meta möguleikana á því að Kolbeinn Sigþórsson geti spilað með Íslandi á HM í sumar.

„Kolbeinn er að fara af stað. Spennandi að sjá hvernig hann kemur til baka eftir sín löngu meiðsli. Auðvitað möguleiki fyrir hann eins og aðra að komast í hópinn ef hann kemst af stað,“ sagði Heimir.

Heimir sagði að Kolbeinn finni ekki til og hnéð bólgni ekki upp. Hann hleypur því verkjalaus í dag sem eru framfarir.

Kolbeinn hefur leitað til íslenskra lækna til að vera sér innan handar en Heimir hefur þó ekki rætt við hann sjálfur.

Kolbeinn Sigþórsson er annar markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi og var algjör lykilmaður liðsins í EM-ævintýrinu. Íslenska liðið komst hinsvegar á HM án hans og hefur því náð að fylla í skarðið. Það væri hinsvegar frábært að fá þennan öfluga framherja aftur inn í liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×