Gæludýrahald í öryrkjablokkunum í Hátúni var bannað árið 2015 – vegna fjölda kvartana, að sögn forsvarsmanna Brynju. Bannið vakti hörð viðbrögð á sínum tíma og reyndist mörgum íbúum áfall. Margir íbúanna hafa þó haldið gæludýr í blokkunum síðan enda hafa þeir sagt dýrin sér lífsnauðsynleg. Dýrin hjálpi þeim mjög að rjúfa félagslega einangrun og einsemd. Ekki hafa þó allir verið svo heppnir að vera látnir afskiptalausir með dýr sín.

Aðspurð hvort henni sé gefinn kostur á að losa sig við hundinn og halda íbúðinni segir hún svo vera.
„Jú, ég má losa mig við hann en ég losa mig ekki við hann frekar en þetta væri barnið mitt. En þar sem ég neita því þá eru svörin bara: Út með þig. Þessi hundur gerir ekki neitt. Þetta er lítið þriggja kílóa dýr. Það eru aðrir hundar hér og kettir en enginn annar hefur fengið svona bréf.“
Sigurbjörg kveðst hafa leitað til lögfræðings ÖBÍ en fengið þau svör að hússjóðurinn sé í rétti enda húsreglurnar skýrar. Tíðindin reyndust henni verulegt áfall.
„Þetta eru húsreglur og allt í góðu með það en það er ekkert svigrúm til samvinnu. Ég hef bent á að hér eru þrjár blokkir í Hátúni, af hverju má ekki ein þeirra leyfa dýr?“
Hún segir hundinn Hroll vinsælan hjá nágrönnum hennar.
„Það er ekkert ofnæmi eða kvartanir. Fólkinu hérna þykir svo vænt um hundinn. Það grætur af gleði yfir að fá að klappa honum,“ segir Sigurbjörg sem kveðst hafa farið með hundinn til foreldra sinna í Hveragerði á dögunum þar sem hún hafi verið andlega búin á því.
