Innlent

Vilja fljúga yfir Jökulsá á Fjöllum og taka sýni úr ánum í dag

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Allar vísbendingar benda til þess að aukna rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum megi rekja til vatnslosunar úr svokölluðu Gengissigi í Kverkfjöllum.
Allar vísbendingar benda til þess að aukna rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum megi rekja til vatnslosunar úr svokölluðu Gengissigi í Kverkfjöllum. Vísir/Pjetur
Allar vísbendingar benda til þess að aukna rafleiðni í Jökulsá á Fjöllum megi rekja til vatnslosunar úr svokölluðu Gengissigi í Kverkfjöllum en ekki þess að jarðhitavatn streymi í ána úr Bárðarbungu. Þetta segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur.

Ármann reiknar með því að reynt verði að fljúga yfir svæðið í dag. Þá segir hann einnig eðlilegt að sýnum verði safnað úr ám á svæðinu til að ganga úr skugga um hvaðan jarðhitavatnið kemur.

„Eins og stendur gefa gervihnattarmyndirnar til kynna að vatnið komi úr Kverkfjöllum og ef svo er er þetta bara hefðbundin vatnslosun úr þessu svokallaða Gengissigi,“ segir Ármann.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur
Leiði mælingar og skoðun úr lofti í ljós að jarðhitavatnið komi úr Gengissiginu segir Ármann að menn muni róast í bili. „Ef það er að koma úr Bárðarbungu vitum við ekki framhaldið. Skjálftarnir sem eru búnir að vera frá því hún lauk sér af úti á sandi benda til þess að hún sé ekki búin að klára sig. Það er mjög ólíklegt annað en að hún komi með annað gos,“ segir Ármann.

Þá segir eldfjallafræðingurinn enn fremur að allur viðbúnaður sé í gangi. „Svæðið er vaktað mjög vel. Menn munu setja sig í meiri viðbragðsstöðu ef þetta reynist vera úr Bárðarbungu, en þetta er mjög líklega úr Kverkfjöllum.

Breytingar á yfirborði jökuls segir Ármann að þurfi ekki endilega að sjást strax þar sem ekki er um stórhlaup að ræða.

„Vatnsmagnið er ekki að aukast neitt svakalega í ánni en ef við erum að mæla aukna leiðni gæti þetta verið fyrirboði þess að það komi einhversstaðar hlaup. Þá þurfum við samt að vita hvaðan vatnið kemur.“  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×