Erlent

Sendi Trump-liðum skýr skilaboð

Samúel Karl Ólason skrifar
Robert Mueller.
Robert Mueller. Vísir/Getty
Með fyrstu ákærunum og opinberunum sínum vegna Rússarannsóknarinnar svokölluðu, sendi Robert Mueller, sérstakur saksóknari dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, skýr skilaboð. Ef þið ljúgið að rannsakendum fáið þið að finna fyrir því. Hann sýndi einnig að hann getur og mun ákæra menn fyrir glæpi sem tengjast framboði Trump og forsetakosningunum ef til vill ekki með beinum hætti.

Tveir menn, þeir Paul Manafort og Rick Gates, voru ákærðir í gær fyrir tólf glæpi. Þar á meðal fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum, peningaþvætti og óskráð starf fyrir erlenda aðila.

Sömuleiðis sendi saksóknarinn einnig sterk skilaboð með uppljóstrun sinni um játningu George Papadopoulos í október og samstarf hans með rannsakendum.

Sjá einnig: Trump sagður rjúkandi reiður eftir ákærurnar

Papadopoulus sem vann við framboð forsetans og var í reglulegum samskiptum við nána ráðgjafa Trump, gaf Mueller og rannsakendum hans fjölda tölvupósta af samskiptum þeirra og starfaði með rannsakendum í leyni um nokkuð skeið.

Hann hafði verið í samskiptum við embættismenn í Rússlandi en var ekki ákærður fyrir það, heldur fyrir að ljúga að starfsmönnum Alríkislögreglu Bandaríkjanna um þau samskipti.

„Ohh. Þeir gætu ekki hafa sent skýrari skilaboð ef þeir hefðu leigt stórt ljósaskilti á Times Square,“ sagði fyrrverandi saksóknarinn Patrick Cotter við Washington Post.

„Skilaboðin eru ekki bara um Manafort. Þau eru til næstu fimm manna sem þeir munu tala við. Skilaboðin eru: Við erum á leiðinni, við erum ekki að grínast, okkur er alvara.“

Yfirlit yfir fyrstu ákærur Mueller.Vísir/GraphicNews
Í skjölum sem voru opinberuð í gær lýstu rannsakendur aðkomu Papadopoulus að málinu sem „smáum hluta umfangsmiklar rannsóknar,“ samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Í skjölunum kom einnig fram að þegar hann vann fyrir framboð Trump var honum tilkynnt í apríl í fyrra að Rússar byggju yfir upplýsingum um Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump, sem myndu koma niður á henni ef þær yrðu gerðar opinberar.

Þetta var áður en í ljós kom að Rússar hefðu gert tölvuárásir og brotið sér leið inn í tölvukerfi Landsnefndar Demókrataflokksins. Stór hluti þeirra tölvupósta var svo birtur á vef Wikileaks í aðdraganda kosninganna. Papadopoulos sagði rannsakendum þó að hann hefði ekki sagt öðrum starfsmönnum framboðsins frá hinum meintu upplýsingum.

Tryggði stöðu sína

Þá hefur Mueller einnig tryggt stöðu sína í sessi og gert Trump og bandamönnum hans erfiðara að stöðva rannsóknina. Fyrrverandi saksóknari sem ræddi við Politico segir að enginn geti lengur sagt að rannsókn Mueller séu tilhæfulausar nornaveiðar, eins og Donald Trump hefur haldið fram frá því að rannsóknin hófst.

Mueller var skipaður sérstakur saksóknari af dómsmálaráðuneytinu eftir að Donald Trump viðurkenndi í sjónvarpsviðtali að hann hefði rekið James Comey, fyrrverandi yfirmann Alríkislögreglunnar, vegna rannsóknar stofnunarinnar á afskiptum Rússa af kosningunum og mögulegri aðkomu framboðs Trump af þeim afskiptum.

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hafði sagt sig frá öllu sem við kom rannsókninni eftir að í ljós kom að hann hefði sagt ósatt um samskipti sín við Sergei Kislyak, fyrrverandi sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Sessions fundaði tvisvar með sendiherra Rússlands



Einhverjir bandamenn Trump, og þar á meðal Stephen Bannon, hafa samkvæmt Politco stungið upp á því að forsetinn grafi undan rannsókn Mueller með því að koma í draga úr fjárveitingum til hennar.

Trump hefur ítrekað veist að Mueller og rannsókn hans og undanfarna daga hefur forsetinn haldið því fram að réttast væri að rannsaka Demókrataflokkinn og Hillary Clinton.

Nú í dag tísti Trump um málið þar sem hann sagði „falska fjölmiðla“ vera að vinna yfirvinnu. Hann sagði allar ákærurnar gegn Manafort snúast að atvikum sem hefðu átt sér stað fyrir kosningarnar og Manafort fór að vinna hjá Trump.

Þá segir forsetinn að fáir hafi þekkt hinn unga sjálfboðaliða sem heiti George [Papadopoulos] og að hann væri lygari. Trump endar svo tístin tvö á: „Skoðið DEMÓKRATANA!“.

Hann bætti svo þriðja tístinu við og sagðist vonast til þess að fólk myndi einbeita sér að skattalækkunum og spillingu meðal demókrata.


Tengdar fréttir

Manafort segist saklaus af öllum ákærunum

Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump, og viðskiptafélagi hans lýstu sig saklausa af ákærum fyrir fyrir samsæri gegn Bandaríkjunum, peningaþvætti og skattsvik, er þeir komu fyrr rétt í Washingon í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×