Innlent

Björgunarsveitir leita að rjúpnaskyttum við Heklu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hópar frá björgunarsveitum á Suðurlandi eru komnir á leitarsvæðið og búið er að boða út leitarhunda og sporhund.
Hópar frá björgunarsveitum á Suðurlandi eru komnir á leitarsvæðið og búið er að boða út leitarhunda og sporhund.
Björgunarsveitir á suðurlandi voru kallaðar út á sjötta tímanum í kvöld vegna rjúpnaskytta sem eru villtar í þoku á svæðinu við Heklu. Mennirnir eru óslasaðir og náðu að tilkynna sjálfir um neyð sína.  Rjúpnaskytturnar eru í stopulu símasambandi og þeir halda kyrru fyrir á meðan björgunarsveitarfólk leitar að þeim.

Hópar frá björgunarsveitum á Suðurlandi eru komnir á svæðið og búið er að boða út leitarhunda og sporhund.

„Við erum komin með mögulega staðsetningu á þeim sem við fengum í gegnum símana þeirra og það eru hópar á leiðinni þangað núna,“ segir Davíð Már Bjarnason hjá Landsbjörgu. Hann segir að símarnir þeirra séu þó að verða straumlausir.

„Það eru tæplega 50 að vinna að þessari aðgerð og fleiri á leiðinni. Það er mikil þoka og mikil rigning á þessu svæði og þeir eru orðnir kaldir, blautir og hraktir.“ Davíð telur að mennirnir séu þokkalega vel búnir en björgunarsveitarfólk hefur leitað þeirra í meira en tvær klukkustundir. Útkallið barst klukkan 18:20 en leitarsvæðið er erfitt yfirferðar.

„Þetta er torfært svæði, hraun og tekur tíma að fara yfir það.“

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×