Erlent

Nýbirt skjöl um JFK valda vonbrigðum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Nærstaddir fylgjast með Jacqueline Kennedy forsetafrú beygja sig yfir eiginmanninn, stuttu eftir að hann var skotinn.
Nærstaddir fylgjast með Jacqueline Kennedy forsetafrú beygja sig yfir eiginmanninn, stuttu eftir að hann var skotinn. Nordicphotos/Getty
Óhætt er að segja að þau skjöl sem tengjast morðinu á John Fitzgerald Kennedy, 35. forseta Bandaríkjanna, sem birt voru í fyrrinótt hafi ekki staðfest framburð þeirra sem aðhyllast samsæriskenningar um andlát forsetans. Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði kynt undir þá elda undanfarna daga, allt frá því fulltrúadeild þingsins samþykkti fyrir stuttu að öll óbirt skjöl skyldi birta er tengjast morðinu.

Bandaríkjaforsetinn núverandi þurfti þó að sætta sig við að halda allnokkrum skjölum leyndum, í það minnsta í bili, eftir þrýsting frá CIA, FBI og innanríkisráðuneytinu. Var talið að þau skjöl gætu skaðað þjóðarhagsmuni og ógnað þjóðaröryggi. Til stendur að endurskoða birtingu skjalanna óbirtu innan hálfs árs.

Kennedy var, eins og frægt er orðið, myrtur þann 22. nóvember árið 1963 þegar hann ferðaðist um stræti Dallas í Texas í opnum bíl. Var hann skotinn til bana.

Opinber portrettmynd Johns F. Kennedy, 35. Bandaríkjaforseta.
Komst rannsóknarnefnd, kennd við formanninn og forseta hæstaréttar Earl Warren, að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hafi verið banamaðurinn. Hann hafi skotið Kennedy til bana úr nærstaddri byggingu og staðið einn að morðinu.

Bandarískir fjölmiðlar gerðu sumir hverjir afar lítið úr birtingu skjalanna. „Enginn mun muna í framtíðinni hvar hann var þegar hann heyrði af því sem kom fram í skjölunum um morðið á JFK er birt voru árið 2017,“ sagði í frétt CNN. 

Enn fremur sagði að atburðarásin sem leiddi til þess að hluti skjalanna var ekki birtur bendi frekar til samsæris en nokkuð sem kemur fram í hinum birtu skjölum.

Ekki er þó þar með sagt að ekkert áhugavert hafi komið fram í hinum nýbirtu skjölum. Meðal annars kemur þar fram að alríkislögreglunni hafi borist símtal þar sem lífi Oswalds var hótað á meðan hann var í haldi. Ekki er vitað hver hringdi en næturklúbbseigandinn Jack Ruby myrti Oswald stuttu síðar. Í skjölunum kemur einnig fram að Ruby hafi verið á eftir­litslista FBI og hann hafi verið „undirheimamanneskja“.

Áhugaverðustu upplýsingarnar snúa hins vegar að því að mögulega hafi einhverjir haft vitneskju um morðið áður en það átti sér stað, þótt ekkert sé nálægt því að vera staðfest í þeim efnum.

Lee Harvey Oswald var myrtir fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar í Texas.
Til að mynda segir í einu skjalinu frá því að breskur blaðamaður hafi fengið nafnlausa ábendingu um „stórfréttir frá Bandaríkjunum“ mínútum áður en Kennedy var myrtur. 

Var blaðamaðurinn hvattur til þess að hringja í bandaríska sendiráðið í Lundúnum. Í öðru skjali segir frá viðtali við mann að nafni Robert C. Rawles, en þar kemur fram að hann hafi heyrt mann á krá veðja hundrað dölum á að Kenn­edy yrði myrtur innan þriggja vikna. Það samtal á að hafa átt sér stað viku fyrir morðið.

Eins og áður segir hafa yfirvöld alla tíð haldið því fram að Oswald hafi myrt Kennedy og að hann hafi verið einn að verki. Hann hafi ekki átt sér neina vitorðsmenn og ekki verið hluti af samsæri. 

Í skjali sem er dagsett skömmu eftir morðið á Oswald eru orð eignuð J. Edgar Hoover alríkislögreglustjóra sem benda til þess að hann hafi viljað kæfa hvers konar samsæriskenningar í fæðingu. 

„Það sem ég vil leggja áherslu á, og aðstoðardómsmálaráðherra líka, er að við þurfum að gera eitthvað til þess að sannfæra almenning um að Oswald hafi í raun og veru verið morðinginn.“

Helstu samsæriskenningar og ástæður

Fjölmargar kenningar hafa sprottið upp um að hinir ýmsu aðilar hafi látið myrða Kennedy og að Oswald hafi ekki verið þar einn að verki. Þykir sumum verksummerki benda til þess að annar byssumaður hafi verið á grasflöt sem Kennedy keyrði fram hjá þegar hann var myrtur. En þótt samsæriskenningarsinnar séu margir eru þeir langt frá því að halda allir því sama fram. Business Insider tók saman nokkrar vinsælustu kenningarnar.

CIA-kenningin

Ýmsir trúa því að leyniþjónustan CIA hafi myrt Kennedy vegna ósættis við stefnu forsetans þegar kom að Kúbu og kommúnisma. Síðasta stráið hafi verið þegar Kennedy neitaði að samþykkja að loftherinn myndi styðja hina misheppnuðu Svínaflóainnrás. Því hafi leyniþjónustan ráðið Oswald og hann tekið á sig sökina.

Mafíukenningin

Tengd kenning snýst um að CIA hafi í raun unnið með mafíunni að því að koma Kennedy fyrir kattarnef. Mafían hafi átt ríkra hagsmuna að gæta á Kúbu, hún hafi rekið þar spilavíti og stefna Kennedys hafi verið líkleg til þess að kosta mafíuna mikið fé. Samkvæmt Business Insider sýna gömul skjöl að mafían hafi áður unnið með CIA að því að reyna að ráða Fidel Castro af dögum og því ekki ómögulegt að hið sama hafi verið uppi á teningnum í Dallas árið 1963.

Kúbverjakenningin

Sumir trúa því að ekki hafi verið um risavaxið samsæri að ræða. Frekar hafi nokkrir Kúbverjar, í útlegð frá ættlandinu, álitið Kennedy vanhæfan vegna hinnar misheppnuðu Svínaflóainnrásar og myrt forsetann. Kennedy var sjálfur vinsæll á meðal kúbverskra flóttamanna í upphafi en vinsældir hans hurfu eftir innrásina.

Johnsonkenningin

Maðurinn sem hagnaðist mest á andláti Kennedys var varaforsetinn Lyndon B. Johnson og því ekki að furða að einhverjum hafi dottið í hug að varaforsetinn hafi látið myrða forsetann til þess að hirða sæti hans. Enn fremur hefur verið fjallað um að Johnson gæti hafa óttast svo mjög að hann yrði ekki með Kennedy í framboði árið 1964 og það hafi ýtt honum yfir brúnina.

KGB-kenningin

Eins og allir vita var kalda stríðið á bullandi siglingu þegar Kennedy var myrtur. Helsti óvinur Bandaríkjanna, og þar með Kennedys, voru Sovétríkin. Því telja ýmsir að sovéskir njósnarar, á vegum leyniþjónustunnar KGB, hafi ráðið Kennedy af dögum. Aðalritari Kommúnistaflokksins, Nikita Krústjef, hafi fyrirskipað morðið vegna þess að Kennedy hafi neytt hann til að fjarlægja langdrægar eldflaugar Sovétríkjanna sem komið hafði verið upp á Kúbu. Í skjölum gærdagsins kom meðal annars fram að Oswald hafi verið í samskiptum við KGB-menn áður en hann skaut forsetann til bana. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×