Innlent

Rjúpnaskytturnar eru fundnar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Björgunarsveitarfólk frá Hellu tók þessa mynd eftir að mennirnir voru fundnir.
Björgunarsveitarfólk frá Hellu tók þessa mynd eftir að mennirnir voru fundnir. Landsbjörg
Rjúpnaskytturnar sem leitað var í kvöld eru fundnar heilar á húfi. Bæði var leitað að rjúpnaskyttum á Suðurlandi og Vesturlandi.

Á Suðurlandi var leitað að nokkrum rjúpnaskyttum sem villtust í þoku. Útkallið barst klukkan 18:20 og fundust mennirnir upp úr níu, heilir á húfi. Þeir voru þó blautir og kaldir. Um 70 manns tóku þátt í leitaraðgerðum auk leitarhunda og sporhunds. Skipti sköpum að hægt var að vera í sambandi við þá í gegnum farsíma samkvæmt Davíð Má Bjarnasyni hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg. 

Á Vesturlandi var leitað að rjúpnaskyttu á tíunda tímanum í kvöld. Skyttan hafði orðið viðskila við veiðifélaga sína í dag. Skyttan fannst á gangi við Þjóðveg 1 núna rétt fyrir klukkan tíu í kvöld. 

Björgunarsveitarmenn segja það gríðarlega mikilvægt að rjúpnaskyttur kynni sér aðstæður og veðurspá og séu vel búnar. Það þurfi einnig að gera ferðaáætlun og skilja eftir hjá aðstandendum. Einnig að vera með nauðsynlegan öryggisbúnað með sér eins og GPS tæki eða neyðarsendi. Það getur líka skipt sköpum að hafa auka rafhlöðu fyrir farsíma. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×