Erlent

Fundu mikið vopnabúr heima hjá fjöldamorðingjanum

Kjartan Kjartansson skrifar
Byssumaðurinn braut glugga á herbergi sínu á Mandalay Bay-hótelinu og skaut þaðan út á tónleikagesti niðri á götu.
Byssumaðurinn braut glugga á herbergi sínu á Mandalay Bay-hótelinu og skaut þaðan út á tónleikagesti niðri á götu. Vísir/AFP
Lögreglan í Nevada fann átján skotvopn, sprengiefni og þúsundir skotfæra á heimili mannsins sem drap að minnsta kosti 59 manns og særði á sjötta hundrað manna á tónleikum í Las Vegas í gærkvöldi. Á hótelherbergi þaðan sem hann skaut á fólkið fannst fjöldi byssa til viðbótar.

Joe Lombardo, sýslumaðurinn í Clark-sýslu sem Las Vegas tilheyrir, segir að lögreglumenn einbeiti sér nú að fjórum stöðum í rannsókn sinni; heimili morðingjans í Mesquite, herbergi á Mandalay Bay-hótelinu þaðan sem hann skaut, tónleikastaðurinn og hús í norðurhluta Nevada.

Þá fundust nokkur kíló af ammóníumnítrati sem er notað við sprengjugerð í bíl morðingjans.

Ríkisstjóri Nevada hefur lýst yfir neyðarástandi í Clark-sýslu. CNN segir að fólk hafi beðið í allt að átta klukkustundir eftir að geta gefið blóð eftir að borgarstjóri Las Vegas óskaði eftir blóðgjöfum.

Lögreglubílar lokuðu veginum að hverfi eldri borgara í bænum Mesquite þar sem fjöldamorðinginn bjó.Vísir/AFP
Morðinginn heitir Stephen Paddock og var 64 ára gamall. Hann er talinn hafa stytt sér aldur eftir að hann myrti tugi manna og særði 527 á kántrítónleikum. Vitni lýstu skothríð sem stóð yfir í tíu til fimmtán mínútur og hljómaði eins og hún kæmi úr sjálfvirkum vopnum.

Paddock skaut fólkið út um glugga á 32. hæð hótelsins. Talið er að hann hafi notast hamar til að brjóta gluggann. Skotárásin er sögð sú mannskæðasta í samtímasögu Bandaríkjanna.

AP-fréttastofan hefur eftir tveimur embættismönnum að 17 skotvopn hafi fundist á hótelherberginu. Lombardo sagði fyrr í dag að tíu byssur hefðu fundist þar.

Lögreglan vill enn ná tali af Marilou Carney, kærustu Paddock. Hún er stödd erlendis á ferðalagi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×