Fótbolti

Ólafur hættur hjá Randers

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur á hliðarlínunni með Randers.
Ólafur á hliðarlínunni með Randers. mynd/randers
Danska liðið Randers og Ólafur Helgi Kristjánsson hafa komist að samkomulagi um að Ólafur láti af þjálfun hjá félaginu. Ólafur hættir strax í dag.

Hvorki hefur gengið né rekið hjá Randers á þessari leiktíð en liðið situr í neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir ellefu leiki.

„Síðustu vikur hef ég átt opin og heiðarleg samtöl við Ólaf um hvernig væri hægt að bæta gengi liðsins. Ólafur hefur verið opinn og heiðarlegur og unnið sér inn alla mína virðingu. Hann er frábær þjálfari og öllum innan félagsins líkar vel við hann en stundum ganga hlutirnir bara ekki upp,“ sagði Michael Gravgaard, stjórnarformaður Randers.

„Við vorum sammála um að það væri félaginu fyrir bestu að hann hætti sem þjálfari. Mér þykir það mjög miður að hlutirnir hafi ekki gengið betur og nú þarf ég að finna nýjan þjálfara.“

Ólafur tók við sem þjálfari félagsins fyrir rúmu ári síðan og spurning hvað tekur við hjá honum næst en ljóst að íslensk félög munu hið minnsta gefa honum auga. Hans gamla félag, Breiðablik, er til að mynda án þjálfara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×