Fótbolti

Neymar fær 13 milljónir í laun á dag og lífverði allan sólarhringinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar.
Neymar. Vísir/Getty
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að ástæða þess að Brasilíumaðurinn Neymar er orðinn leikmaður franska liðsins Paris Saint-Germain er ekki aðeins sú að hann gæti losnað undan skugga Lionel Messi.

Evrópsku miðlarnir fjalla um leka frá Football Leaks um samninginn sem Neymar gerði við Paris Saint-Germain en Der Spiegel, Paris Match og Marca skrifa öll um málið.

Samkvæmt þeim upplýsingum þá fær Neymar 3.069.520 evrur í mánaðarlaun sem þýðir að hann er að fá fjögur þúsund evrur á klukkutímann og hundrað þúsund evrur í laun á dag. Það gerir tæpar þrettán milljónir íslenskra króna í laun á dag.

Það er þó ekki það eina sem kemur fram því franska félagið er líka umhugsað um öryggi stjörnuleikmannsins síns.

Neymar er nú fluttur inn í risa hús í París sem er níu kílómetrum frá æfingasvæði PSG og fjórtán kílómetrum frá heimavellinum Parc des Princes. Leigan á húsinu er aðeins fjórtán þúsund evrur á mánuði en það eru bara smáaurar fyrir mann á svona launum.

Franska félagið sér til þess að það eru öryggisverðir við húsið allan sólarhringinn. Þangað kemst því enginn inn sem ekki á þangað erindi.

Það þarf heldur ekkert að kvarta yfir byrjun Neymar með liði Paris Saint-Germain en hann er þegar kominn með fimm mörk og fimm stoðsendingar á tímabilinu. Eina vandamálið er kannski opinbert rifildi Neymar við liðsfélaga sinn Edinson Cavani í miðjum leik um hvor þeirra ætti að taka vítaspyrnu í síðasta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×