Erlent

Salvador Sobral þungt haldinn á gjörgæslu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Salvador Sobral er sagður þurfa hjartaígræðslu á allra næstu vikum.
Salvador Sobral er sagður þurfa hjartaígræðslu á allra næstu vikum. Vísir/epa
Siguvegari Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Salvador Sobral, er sagður í „kapphlaupi við tímann“ en honum þurfti að koma í flýti undir læknishendur í síðustu viku.

Hann liggur nú þungt haldinn á gjörgæsludeild í Lissabon, höfuðborg Portúgals, þar sem hann bíður eftir nýju hjarta ef marka má frétt El Mundo.

Sobral ásamt systur sinni og höfundi sigurlagsins Amar Pe­los Dois, Luísa Sobral, hlutu alls 758 stig í keppninni í vor. Íslendingar hrifust einnig af systkinunum og fékk Portúgal 12 stig frá Íslandi.

Hann hefur þurft að aflýsa fjölda tónleika á næstu mánuðum vegna heilsubrests. Þannig er hann sagður hafa brostið í grát á tónleikum í borginni Estoril á dögunum. Þegar hann tók þátt í Söngvakeppninni í vor mátti hann þannig einungis vera í burtu frá heimalandi sínu í tvær vikur þangað sem hann þurfti að fara í lyfjameðferð. Sobral gerði þó lítið úr veikindum sínum, þar sem „vandamál annarra eru mun stærri en hans.“

Síðan þá hefur heilsu hans hrakað mikið og talið er að ef hann fái ekki nýtt hjarta á allra næstu dögum og vikum muni hann eflaust ekki hafa það af. Að sögn erlendra miðla hefur ekki fundist líffæragjafi sem hentar Sobral.

Hér að neðan má heyra hann flytja framlag Portúgals í Söngvakeppninni í vor.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×