Erlent

Öllum íbúum gert að yfirgefa heimili sín

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fyrr í vikunni mátti sjá mikinn reyk stíga upp úr fjallinu.
Fyrr í vikunni mátti sjá mikinn reyk stíga upp úr fjallinu. Rauði Krossinn
Þúsundir eyjaskeggja hafa verið beðnir um að yfirgefa heimili sín á eyju í Vanúatú þar sem allt virðist stefna í eldgos.

Stjórnvöld eyjaklasans segjast ekki vilja taka neina áhættu og hafa því farið fram á að allir 11 þúsund íbúar eyjunnar Ambae flýi við fyrsta tækifæri. Stjórnvöld munu leggja til báta við björgunina en búist er við að aðgerðirnar gætu staðið yfir til 6. október. Íbúarnir verði fyrst um sinn fluttir á nærliggjandi eyjar þar sem komið verður upp tjaldbúðum. Ríflega 1.9 milljónum dala, rúmlega 200 milljónum króna, verður varið til verkefnisins.

Íbúi á eyjunni segir í samtali við Guardian að reykjarstrókur stígi nú upp frá eldfjallinu Monaro og að reglulega heyrist drunur djúpt innan úr fjallinu.

Búið er að hækka viðvörunarstigið á eyjunni sem stendur nú í fjórum stigum af fimm. Hæsta stigið gerir ráð fyrir meiriháttar eldhræringum.

Alls er búið á 65 eyjum á Vanúatú sem staðsettar eru í miðju Kyrrahafinu, mitt á milli Ástralíu og Havaí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×