Innlent

Kemur í ljós hvort stjórn Hörpu skoðar mál Sigur Rósar

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Tónleika- og ráðstefnuhúsið Harpa.
Tónleika- og ráðstefnuhúsið Harpa. vísir/eyþór
„Það kemur bara að því á næsta stjórnarfundi ef ástæða er til,“ segir Þórður Sverrisson, nýr stjórnarformaður Hörpu ohf., aðspurður hvort stjórnin muni óska eftir skýringum frá forstjóra um hvað leiddi til þess að tónleikahaldaranum Kára Sturlusyni voru greiddir út tugir milljóna af miðasölu tónleika Sigur Rósar sem fram eiga að fara í desember.

Þeir peningar eru horfnir og herma heimildir að Kári hafi ráðstafað þeim í annað.

Þórður tók við stjórnarformennsku á mánudag og viðurkennir að hann sé ekki búinn að setja sig inn í þetta mál og viti ekki betur en að það sé allt með eðlilegum hætti gagnvart Hörpu. Vísar hann á Svanhildi Konráðsdóttur þar sem um sé að ræða rekstrarmál sem eingöngu forstjóri fjalli um.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins þarf ekki að vera óeðlilegt að tónleikahaldarar fái aðgang að miðasölutekjum sem Harpa heldur utan um. Það sé hins vegar háð hverjum samningi hverju sinni. Forstjóri Hörpu hefur hins vegar ekkert viljað segja um það og ber fyrir sig trúnað við viðskiptavini.

Forstjóri heyrir undir stjórn og segir Þórður, þegar hann er spurður að því hvort ekki sé eðlilegt að stjórnin láti sig málið varða og fái því í það minnsta svarað hvort Harpa muni bera skaða af því, að það komi þá upp á næsta stjórnarfundi.

„Þetta er nú ekki þannig mál, en ég þekki það ekki. Það kemur í ljós ef svo er.“ 


Tengdar fréttir

Sakna tuga milljóna úr miðasölu hjá Sigur Rós

Ríflega 30 milljónir króna af miðasölu tónleikaraðar Sigur Rósar í Hörpu í desember eru horfnar. Ábyrgðarmaður tónleikanna fékk fyrirframgreiðslu hjá Hörpu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×