Erlent

Flytja 60 þúsund manns úr Frankfurt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búið er að setja blátt tjald yfir sprengjuna.
Búið er að setja blátt tjald yfir sprengjuna. Vísir/Getty
Til stendur að flytja 60 þúsund manns úr Frankfurt á sunnudag eftir að stærðarinnar sprengja úr seinna stríði fannst í miðborginni. Sprengjan fannst við jarðvegsvinnu á Wismarer-götu, skammt frá Goethe-háskólanum á þriðjudag.

Í yfirlýsingu frá lögregunni segir að í ljósi stærðar sprengjunnar séu svo umfangsmiklar aðgerðir taldar nauðsynlegar.

Um sé að ræða breska sprengju af gerðinni HC 4000 og er hún um 1.4 tonn að þyngd. Lögreglan vaktar sprengjuna allan sólarhringinn, þrátt fyrir að hún telji almenningi ekki stafa mikil hætta af henni.

Hún hafi ekki viljað taka neina áhættu meðan sprengjusveit lögreglunnar reynar að aftengja hana og því verið ákveðið að ferja allan þennan fjölda úr miðborginni.

Rýmingin fer fram klukkan átta á sunnudagsmorgunn en frekari upplýsinga er að vænta síðar í dag.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tugþúsundir Þjóðverja hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna sprengja sem þessarar. Síðast í maí þurftu 50 þúsund manns að yfirgefa Hanover eftir að sprengja fannst á iðnaðarsvæði í Vahrenwald-hverfinu. Í Augsburg þurfti að flytja 50 þúsund manns eftir að sprengju varð vart undir bílakjallara á jóladag í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×