Erlent

Svipti hulunni af íburðarmiklum sumarbústað Pútíns

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sumarbústaður Pútíns er íburðarmikill og útbúinn þyrlupalli. Á skjáskotinu hér að ofan sést eitt af gestahúsum eignarinnar, að því er Navalny segir í myndbandinu.
Sumarbústaður Pútíns er íburðarmikill og útbúinn þyrlupalli. Á skjáskotinu hér að ofan sést eitt af gestahúsum eignarinnar, að því er Navalny segir í myndbandinu. Skjáskot/Youtube
Leiðtogi rússnesks stjórnarandstöðuflokks, Alexei Navalny, birti í gær myndband, sem hann segir sýna sumarbústað Pútíns, forseta Rússlands. Sumarbústaðurinn er gríðarstór og stendur í grennd við landamæri Rússlands og Finnlands en Nadvalny sakar Rússlandsforseta um spillingu. The Guardian greinir frá.

Setrið er þekkt undir nafninu Villa Segren og er staðsett á landareign á og við eyjuna Lodocnhy í Kirjálabotni. Í myndbandinu, sem tekið er upp á drónamyndavél, sést að eignin samanstendur meðal annars af nokkrum húsum, þyrlupalli og bryggju. Alexei Navalny birti myndbandið á YouTube í gær en hann er leiðtogi rússneska Framsóknarflokksins (Progressive Party). Meðlimir hans eru andvígir Pútín.

Alexei Navalny, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar.Vísir/AFP
Í myndbandinu segir Navalny mikla gæslu vera á svæðinu og að íbúum bæja í kring sé bannaður aðgangur. Þá segir hann nána vini Pútíns eiga eignina sjálfa en hún sé greinilega ætluð forsetanum til afnota. Því sé um að ræða eina af „hefðbundnu svikamyllum“ Pútíns og sakar hann um spillingu.

Landið sem eignin er byggð á er leigt af viðskiptamanninum Sergei Rudnov, að því er Navalny segir í myndbandinu. Rudnov er sonur náins vinar Pútíns og vann einnig fyrir rússneska sellóleikarann Sergei Roldugin. Sá er einnig vinur forsetans en nafn hans er auk þess tengt Panama-skjölunum frægu.

Navalny hefur ítrekað sakað háttsetta rússneska stjórnmálamenn um misferli og að sanka að sér ólöglegum fjármunum. Fyrir tveimur vikum greindi hann meðal annars ítarlega frá taumlausri eyðslu Nikolay Choles, sonar talsmanns Pútíns, Dmitry Peskov.

Myndbandið sem Alexei Navalny birti má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×