Erlent

Mál Kim Wall: Lögregla kannar möguleg tengsl við eldri óupplýst mál

Atli Ísleifsson skrifar
Líkamsleifar hinnar japönsku Kazuko Toyonaga fundust í sjónum í Kaupmannahöfn á haustdögum 1986.
Líkamsleifar hinnar japönsku Kazuko Toyonaga fundust í sjónum í Kaupmannahöfn á haustdögum 1986. Vísir/afp

Lögregla í Kaupmannahöfn kannar nú hvort að hinn danski Peter Madsen, sem grunaður er um að hafa banað sænsku blaðakonunni  Kim Wall, gæti tengst eldri óupplýstum sakamálum.

Aðstoðarlögreglustjórinn Jens Møller greindi frá þessu á blaðamannafundinum í morgun. Sagði hann það venju í manndrápsmálum að kanna möguleg tengsl við eldri, óupplýst mál.

„Það er klárt að við rifjum upp eldri mál. Við erum með mál frá 1986, þar sem búkur japansks ferðamanns fannst í höfn Kaupmannahafnar. Þetta gerum við alltaf í manndrápsmálum,“ er haft eftir Møller í frétt DR.

Á haustdögum 1986 sá leigubílstjóri plastpoka fljótandi í sjónum við Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn. Í pokanum fundust búkur og fótleggir konu. Nokkrum dögum eftir að plastpokinn fannst við Íslandsbryggju fannst annar við Christianshavns Kanal, einnig með líkamsleifum, sem reyndust vera af sömu konu.

Heila átta mánuði tók þó að bera kennsl á líkamsleifarnar, með aðstoð þýsks tannlæknis. Kom í ljós að um var að ræða 22 ára japanska námskonu, Kazuko Toyonaga, sem hafði ferðast frá Tokýó í maí 1986 og ferðast um Þýskaland, Svíþjóð og Danmörku. Hennar hafði verið saknað í 25 daga þegar fyrri pokinn fannst. Morðmálið varð aldrei upplýst.


Tengdar fréttir

Brotlending hins danska Geimflauga-Madsen

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen er mjög þekktur maður í Danmörku. Sú staðreynd að hann sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs sænsku blaðakonunnar Kim Wall hefur vakið gríðarlega athygli í heimalandi hans og raunar um heim allan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.