Fótbolti

Fullyrt að Mbappe semji við PSG

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kylian Mbappe í leik með PSG.
Kylian Mbappe í leik með PSG. vísir/getty
Aðeins nokkrum dögum eftir að PSG gerði Neymar að dýrasta knattspyrnumanni sögunnar berast nú fregnir af því að félagið ætli að greiða litlu minna fyrir franska ungstirnið Kylian Mbappe, leikmann Monaco.

Mbappe steig fram á sjónarsviðið á síðasta tímabili og sló í gegn með Monaco sem varð franskur meistari. Hann hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid en ef marka má fréttir Marca og Sport á Spáni er hann á leið í frönsku höfuðborgina.

Fullyrt er í Sport að PSG og Monaco hafi komist að samkomulagi um kaupverð, 180 milljónir evra eða 22,3 milljarða króna. PSG greiddi 222 milljónir fyrir Brasilíumanninn Neymar sem kom frá Barcelona.

Marca segir að pappírsvinna sé nú þegar hafin um félagaskipti Mbappe sem verði kynntur til sögunnar sem nýr leikmaður PSG á mánudag. Le Parisien í Frakklandi segir hins vegar að bæði félög, Monaco og PSG, neiti fyrir að tilboð liggi á borðinu.

Ef þetta reynist rétt hefur PSG eytt meira enn 400 milljónum evra í tvo leikmenn. Fullyrt er að næstur í sigtinu hjá franska stórliðinu sé Jan Oblak, markvörður Atletico Madrid.

Mbappe er sjálfur fæddur og uppalinn í París og alist upp sem stuðningsmaður PSG.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×