Innlent

Hugnast ekki að fámennur hópi stilli upp í sæti

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Halldór tilkynnti um ákvörðun sína í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Halldór tilkynnti um ákvörðun sína í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir/Ernir

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, hyggst ekki gefa kost á sér í leiðtogakjöri flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Þetta tilkynnti Halldór í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í gær. Sagði Halldór að hann hafi komist að þessari niðurstöðu fyrir tíu dögum, eftir að hafa endurmetið aðstæður sínar. Fyrir viku sagði Halldór í samtali við Fréttablaðið að hann hygðist sækjast áfram eftir oddvitasætinu, en tók fram að vika væri þó langur tími í pólitík.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá eru nokkrir orðaðir við oddvitasætið, þar á meðal tveir aðstoðarmenn ráðherra Sjálfstæðisflokksins, þau Svanhildur Hólm Valsdóttir og Borgar Þór Einarsson.

„Maður veit ekkert hvort þetta er samkvæmisleikur eða hvort það er eitthvað á bak við þetta,“ segir Halldór í samtali við Fréttablaðið. „Það er alltaf þörf á einhverri endurnýjun. Hvað varðar leiðtogana og oddvitann þá gera Sjálfstæðismenn miklar kröfur. Stundum hef ég á tilfinningunni að þeir séu að bíða eftir því að Davíð Oddsson komi aftur með 60% fylgi. Það var árið 1991 og síðan þá eru margir oddvitar búnir að vera.“

Skiptar skoðanir eru meðal Sjálfstæðismanna um ágæti boðaðs leiðtogakjörs í október. Þykir mörgum tillagan ekki vera lýðræðisleg. „Ég held að það sé best að gera þetta eftir áramót. Mér hefur aldrei hugnast það að fámennur hópi stilli upp í sæti. Ég tel að sem flestir eigi að koma að þessu“.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.