Erlent

Schulz mun sitja sem fastast

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Baráttan fyrir þingkosningar í Þýskalandi er hafin.
Baráttan fyrir þingkosningar í Þýskalandi er hafin. vísir/afp
Martin Schulz, kanslaraefni þýska Jafnaðarmannaflokksins, mun ekki segja af sér formannsembætti í flokknum jafnvel þótt flokkur hans tapi í þingkosningum næsta mánaðar.

Skoðanakannanir benda sterklega til þess að einmitt það muni gerast í september. Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel­ kanslara, mælast með 37 til 38 prósenta stuðning í fjórum nýjustu könnununum. Aftur á móti mælast Jafnaðarmenn með 23 til 25 prósenta fylgi og er því ljóst að nokkur munur er á flokkunum.

„Ég mun að sjálfsögðu sækjast eftir endurkjöri á næsta landsþingi,“ sagði Schulz við fjölmiðla í gær. „Jafnaðarmannaflokkurinn myndi njóta þess að leiðtogar hans þjónuðu lengur.“

Schulz var kosinn leiðtogi flokksins á landsþingi í mars. Fékk hann hundrað prósent greiddra atkvæða. Í kjölfar landsþingsins tók fylgi Jafnaðarmannaflokksins kipp en það lækkaði þó aftur í fyrra horf. Áður hafði hann meðal annars gegnt hlutverki forseta Evrópuþingsins.

Jafnaðarmannaflokkurinn hefur undanfarið kjörtímabil setið með Kristilegum demókrötum í ríkisstjórn og er ekki útilokað að það samstarf haldi áfram að loknum kosningum. Þó gefa sumar skoðanakannanir til kynna að hægriflokkurinn Frjálsir demókratar gæti fengið nógu marga þingmenn til að tryggja meirihluta með flokki Merkel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×