Erlent

Sádi Arabía fundar með bandamönnum í Kaíró

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Utanríkisráðherra Katar, Mohammed bin Abdul Rahman, á blaðamannafundi í Doha, höfuðborg Katar, í gær.
Utanríkisráðherra Katar, Mohammed bin Abdul Rahman, á blaðamannafundi í Doha, höfuðborg Katar, í gær. Vísir/afp
Sádi Arabía, Egyptaland, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Barein munu funda í Kaíró, höfuðborg Egyptalands, til að ræða deiluna við nágrannaríkið Katar. BBC greinir frá.

Mánuður er nú síðan Persaflóaríkin fjögur sem koma að fundinum slitu stjórnmála- og viðskiptasambandi við Katar. Í kjölfarið gáfu ríkin Katar lista af skilyrðum, sem landið þarf að uppfylla, til að aflétta þvingununum sem það er nú beitt. Framlengdur frestur Katar til að samþykkja kröfurnar er nú að renna út en fundur Persaflóaríkjanna fer fram innan skamms í Kaíró, höfuðborg Egyptalands sem á aðild að bandalaginu gegn Katar.

Persaflóaríkin krefjast þess meðal annars að starfsemi Al Jazeera fréttastöðvarinnar verði hætt og að Katar takmarki stjórnmálaleg tengsl sín við Íran. Þá hafa ríkin sakað Katar um að fjármagna hryðjuverkahópa á borð við ISIS og Bræðralag múslima.

Utanríkisráðherra Katar, Mohammed bin Abdul Rahman al-Thani, sagði í gær að kröfur Sádi Arabíu og bandamanna væru óraunhæfar. Þá neitar Katar einnig öllum ásökunum ríkjanna.

„Þetta snýst ekki um hryðjuverk, þetta snýst um að loka fyrir tjáningarfrelsi,“ var haft eftir honum.


Tengdar fréttir

Katörum sett ströng skilyrði

Fjögur Arabaríki hafa sent Katörum strangar kröfur, eigi þau að aflétta þvingunum gegn katarska ríkinu. Ríkin sem um ræðir eru Sádi-Arabía, Egyptaland, Bahrein og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Íran sendir hundruð tonna af mat til Katar

Írönsk yfirvöld hafa sent fjórar flugvélar af mat til Katar en yfirvöld þar í landi reyna nú að bæta í forðabúr sitt eftir að helstu birgðasalar þess slitu stjórnmála- og viðskiptasambandi við landið.

Persaflóaríkin gefa Katar tveggja daga frest

Á laugardag sagði utanríkisráðherra Katar, Sheikh Mohammed bin Abdulrahman bin Jassim Al-Thani, að Katar hefði hafnað kröfunum en væri tilbúið til frekari samningaviðræðna við réttar kringumstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×