Enski boltinn

Besti vinur Klopps framlengir við nýliðana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Wagner stýrir Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
David Wagner stýrir Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. vísir/getty
David Wagner, knattspyrnustjóri Huddersfield, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

Wagner kom Huddersfield upp í ensku úrvalsdeildina í vor eftir sigur á Reading í umspili á Wembley. Huddersfield lék síðast í efstu deild á Englandi fyrir 45 árum.

Wagner, sem er fyrrverandi bandarískur landsliðsmaður, tók við Huddersfield í nóvember 2015. Á hans fyrsta tímabili endaði liðið í 19. sæti ensku B-deildarinnar.

Á síðasta tímabili endaði Huddersfield í 5. sæti deildarinnar og vann svo Sheffield Wednesday og Reading í umspili.

Hinn 45 ára gamli Wagner er besti vinur Jürgens Klopp, stjóra Liverpool, en þeir unnu saman hjá Borussia Dortmund. Wagner var m.a. svaramaður í brúðkaupi Klopps.

Fyrsti leikur Huddersfield í ensku úrvalsdeildinni er gegn Crystal Palace laugardaginn 12. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×