Fótbolti

Drogba tileinkaði Cheick Tiote draumabyrjun sína í nótt | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba fagnar marki sínu.
Didier Drogba fagnar marki sínu. Vísir/Getty
Didier Drogba, fyrrum leikmaður Chelsea og fyrsti spilandi eigandinn í fótboltanum, byrjaði vel með liði sínu Phoenix Rising í nótt í USL-deildinni í Bandaríkjunum.

Drogba skoraði mark og lagði upp annað mark til viðbótar fyrir liðsfélaga sinn í 2-1 sigri á Whitecaps FC II.





Eftir leikinn tileinkaði Drogba landa sínum sigurinn en Fílastrendingurinn Cheick Tiote hneig niður á æfingu í Kína á dögunum og lést aðeins þrítugur að aldri.

Drogba skoraði fyrra markið síns liðs á 40. mínútu en hann hafði ekki spilað síðan að hann lék sinn síðasta leik með Montreal Impact í nóvember. Það þarf ekki að koma mikið á óvart að hann hafi skorað með skalla eftir að hafa verið sterkari en allir í loftinu.  BBC segir frá.

Drogba lagði síðan upp sigurmarkið fyrir hinn 35 ára gamla Shaun Wright-Phillips á 77. mínútu. Reynsluboltarnir að vinna saman í framlínu Phoenix Rising.





„Ég vil tileinka Cheick Tiote þennan sigur en hann lést við að gera það sem hann elskaði. Hugur minn og samúð er hjá fjölskyldu hans, Fílabeinsströndinni og allri Afríku þar sem allir voru að missa einn af sínum,“ sagði Didier Drogba.

Phoenix Rising hét áður Arizona United en væntingar liðsins eru að verða eitt af fjórum félögum sem bætt verður við MLS-deildina á næstu þremur árum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×