Innlent

Eldri borgarar bíða í allt að ár eftir að komast að í dagvist

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Um eitt hundrað eldri borgarar bíða eftir því að komast að í dagvist í Múlabæ og er meðalbiðtími allt að eitt ár. Forstöðumaður þar segir skorta úrræði fyrir aldraða sem þurfa stuðning.

Múlabær er eitt þeirra dagvistunarúrræða sem í boði eru á höfuðborgarsvæðinu fyrir aldraða. Skjólstæðingarnir í hverri viku eru 117. Í Múlabæ er félagsstarf og hjúkrunarstarf í boði. Þeir sem þangað koma búa heimahúsi en þurfa á stuðningi að halda.

„Við erum að fylgjast með heilsufari fólks. Við erum að sjá teikn um að heilsu sé farið að hraka og þá getum við brugðist við í tíma,“ segir Þórunn Bjarney Garðarsdóttir forstöðumaður í Múlabæ og Hlíðarbæ.

Bæði aldraðir og öryrkjar geta sótt um í Múlabæ. Oft eru það heimilislæknar sem sækja um fyrir fólk og sumir sem þangað hafa komið hafa verið að bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili.

„Við erum núna með um tæplega hundrað manns á biðlista og biðtíminn er svona, það hefur verið, allt upp í eitt ár,“ segir Þórunn.

Meðalaldur þeirra sem koma í Múlabæ er 86 ár og segja flestir þeirra það hafa mikla þýðingu að fá þá þjónustu sem þar er í boði. „Maður er voðalega einmana einn þó maður geti ýmislegt. Hér er allt gert sem hugsast getur,“ segir Erla Svavarsdóttir. Í sama streng tekur Gunnar Andrésson en hann hefur komið í Múlabæ reglulega í nokkur ár. „Fyrir fimm sex árum var ég nú á Landspítalanum og upp úr því kom ég hingað sko. Ég var farinn að finna fyrir því að áður en ég kom hingað sko að hafa mig bara ekki fram úr á morgnana,“ segir Gunnar.

Þórunn segir skorta úrræði fyrir aldraða sem þurfa stuðning, bæði dagvistun og hjúkrunarrými. „Það að fólk skuli vera að liggja inni á Landspítalanum, í rauninni búið í meðferð og ekki komast í önnur úrræði að það segir náttúrulega sína sögu. Við þurfum einhvers staðar að gefa í,“ segir Þórunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×