Innlent

Umfangsmikið kókaín- og steramál frestast þar sem tveir ákærðu eru látnir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á myndinni má sjá um fjögur kíló af kókaíni. Myndin tengist fréttinni ekki á annan hátt.
Á myndinni má sjá um fjögur kíló af kókaíni. Myndin tengist fréttinni ekki á annan hátt. Lögreglan
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur fjórum karlmönnum fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots. Þeir eru sakaðir um að hafa á árinu 2014 í samvinnu fjármagnað og skipulagt innflutning á að minnsta kosti fjórum kílóum af kókaíni frá Brasilíu. Efnið átti að selja í ágóðaskyni hér á landi.

Um er að ræða hluta af ákæru á hendur níu Íslendingum, átta körlum og einni konu. Ákærunni má skipta í sjö aðskilin mál en þau snúa öll að innflutningi á ólöglegum efnum. Fíkniefnum annars vegar og sterum hins vegar. Sum ákærðu koma við sögu í mörgum málanna sem útskýrir hvers vegna þau eru öll tekin fyrir í eina ákæru.

Málið átti að taka fyrir nú í júní en hefur verið frestað um ótilgreindan tíma þar sem tveir af níu ákærðu eru látnir. Annar lést snemma á árinu en hinn nýlega af slysförum. Því þarf að endurskoða ákæruna áður en málið verður tekið til meðferðar hjá dómstólum.

Allt að tólf ára fangelsi getur beðið þeirra sem eru dæmdir fyrir fíkniefnainnflutning.

Kókaín virðist njóta töluverðra vinsælda hér á landi um þessar mundir.Vísir/Hari
Kókaín frá Brasilíu

Hafþór Logi Hlynsson, 29 ára karlmaður, er einn fjórmenninganna sem er ákærður í tengslum við fyrirhugaðan innflutning á fjórum kílóum af kókaíni.

Hann hefur áður hlotið þungan dóm fyrir fíkniefnainnflutning. Lagði hann tvær milljónir króna í verkefnið og greiddi að hluta fyrir uppihald eins ákærða í Brasilíu, rúmlega tvítugs íslensks karlmanns.

Hafþóri er gefið að sök að hafa fengið sjö einstaklinga til að kaupa evrur á fimm daga tímabili í júní 2014 fyrir rúmlega 2,2 milljónir króna. Voru keyptir flugmiðar fyrir þessa sjö til þess að þeir gætu orðið sér úti um gjaldeyri.



Þá er rúmlega þrítugur karlmaður ákærður fyrir að leggja til eina milljón króna í verkefnið að undirlagi Hafþórs Loga. Sá flutti fjármunina til Amsterdam þar sem þeir voru nýttir til kaupa á fíkniefninu MDMA. 

MDMA töflur úr fyrri málum sem komið hafa á borð lögreglu.Vísir/GVA
MDMA í skiptum fyrir kókaín

Það efni var svo nýtt til kaupa á kókaíni í Brasilíu. MDMA er aðgengilegra fíkniefni í Evrópu en kókaín sem er eftirsótt í álfunni þessi misserin á sama tíma og MDMA virðist furðu aðgengilegt. Sá er lést nýlega er gefið að sök að hafa keypt kókaín í Brasilíu sem flytja átti til Íslands.

Hafþór Logi er sagður hafa verið í stöðugu sambandi við hina ákærðu á meðan á fyrirhuguðum fíkniefnainnflutningi stóð. Þriðji maður er sömuleiðis ákærður fyrir að hafa fjármagnað innflutninginn. 

Fjórði maðurinn, sem einnig var sakaður um að hafa skipulagt og fjármagnað innflutninginn, lést nýlega af slysförum. Hann var einnig ákærður fyrir innflutning á hálfu kílói af kókaíni árið 2014.

Sveinn Gestur Tryggvason, einn þeirra sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að manndrápinu í Mosfellsdal í síðustu viku, er ákærður fyrir að veita efninu móttöku á hóteli við Þórsgötu í Reykjavík.

Fjallað var um aðkomu Sveins á Vísi fyrir helgi.

Frá AMsterdam, þar sem MDMA var keypt.Vísir/Getty
Afar sterkt kókaín í Amsterdam

Hafþór er sömuleiðis ákærður ásamt fimm öðrum fyrir innflutning á 150 grömmum af kókaíni, um 85 prósent að styrkleika, frá Amsterdam sumarið og haustið 2014. Hafþór sendi öðrum ákærða, sem staddur var í Amsterdam og er gefið að sök að hafa útvegað fíkniefnin, 2200 evrur í tveimur greiðslum.

Þá á Hafþór að hafa fengið þriðja ákærða í málinu til að senda sama manninum í Amsterdam 2700 evrur en peningarnir voru nýttir til að kuapa fíkniefnin. 

Burðardýrið, 29 ára karlmaður, flaut til London og þaðan til Amsterdam. Tók hann að sér verkefnið í því skyni að fá skuld fellda niður. Hann tók á móti efnunum í Amsterdam og flutti til Íslands innvortis og innanklæða í fjórum pakkningum. 

Þá er par á þrítugsaldri ákært fyrir að hafa fengið burðardýrið til verksins. Unnustinn er annar þeirra sem er látinn en hann lést snemma á árinu. 

Töluverð aukning virðist í steranotkun á Íslandi þessi misserin.Vísir/Getty
Sterar og lyf í kílóavís

Þá er Hafþór einn þriggja sem ákærður er fyrir umfangsmikinn innflutning á lyfjum frá Kína, allt að átta kílóum. Hinir tveir eru einnig ákærðir fyrir aðild að innflutningnum á fjórum kílóum af kókaíni. Um var að ræða um átta kíló af lyfjum s.s. nadrólon fenýlprópíonat, bensókaín og lídókaín, í samtals 220 pokum.

Samkvæmt aðflutningsskýrslu, vörureikningum og innihaldslýsingu var matvara í pokunum.

Sjá einnig: Steraæði á Íslandi

Einn mannanna er sömuleiðis ákærður fyrir stórfellt tolla-, lyfja- og lyfsölulagabrot með því að hafa í apríl 2014 flutt inn steralyf frá Kína, allt í allt um fimm kíló. Lögregla fann lyfin við húsleit á heimili hans í Bryggjuhverfinu í Grafarvogi. Hann pantaði lyfin á netinu og greiddi fyrir með um sex þúsund dollurum, rúmlega sex hundruð þúsund krónum. Peningana sendi hann með Western Union.

Hálfu ári síðari fann lögregla aftur lyf á heimili mannsins, sem hann hafði ekki markaðs- og lyfsöluleyfi fyrir, bæði á föstu og fljótandi formi. Er hann sömuleiðis ákærður fyrir þann hluta.

Frétt DV frá árinu 2012.
Týndur uppi á jökli

Hafþór Logi hlaut tveggja og hálfs árs dóm í Hæstarétti í nóvember 2012 fyrir að leggja á ráðin og standa að innflutningi á tæplega 900 grömmum af kókaíni til landsins. Úr efninu mátti framleiða um 3,7 kíló af kókaíni til neyslu. Æskuvinur Hafþórs hlaut þriggja ára dóm fyrir sinn hluta og þriðji maður átján mánaða dóm.

Athygli vakti að burðardýrið í því máli var 71 árs gamall karlmaður en hann var tekinn í tollinum við komuna til Íslands frá Kaupmannahöfn. Sá játaði brot sitt og fékk mildari dóm fyrir að upplýsa um þátt annarra í málinu. Sagði hann mennina hafa hótað sér lífláti færi hann ekki í ferðina.

Í því máli höfðu lögreglu borist ábendingar um að Hafþór flytti inn fíkniefni í ferðatöskum. Var gerð húsleit hjá honum í janúar 2010 og fundust þá plastbrot með holum rásum sem talin voru úr ferðatöskum. Á brotunum fundust kókaínleifar. Mánuði síðar var hinn 71 árs gamli handtekinn í flugstöðinni.

Í framhaldinu ákvað lögregla að hlera síma Hafþórs þar sem honum var greint frá því að ekkert hefði heyrst frá burðardýrinu. Fóru umræður fram á á dulmáli þar sem velt var fyrir sér hvort burðardýrið væri „týnt uppi á jökli“ eða „að tjilla“. Týndur uppi á jökli þýddi að búið væri að handtaka manninn en „tjilla“ vísaði til þess að hann hefði ekki verið handtekinn.

Hafþór hefur hlotið vel á annan tug refsidóma frá árinu 2002. Hann ítrekaði sakleysi sitt í málinu á Facebook eftir að dómur féll í héraði og sagðist ætla að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Þar var dómur hans þyngdur um sex mánuði. 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×