Innlent

Í gæsluvarðhaldi grunaður um kynferðisbrot gegn 12 ára stúlku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn er grunaður um að hafa brotist inn á heimili stúlkunnar í Hafnarfirði og brotið gegn henni þar sem hún lá í rúmi sínu.
Maðurinn er grunaður um að hafa brotist inn á heimili stúlkunnar í Hafnarfirði og brotið gegn henni þar sem hún lá í rúmi sínu. Vísir/Daníel
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að karlmaður sæti gæsluvarðhaldi til 7. júlí næstkomandi en hann er meðal annars grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn 12 ára stúlku þegar hann kom óboðinn um inn í herbergið hennar á heimili hennar í Hafnarfirði í maí síðastliðnum.

Í frétt Vísis um málið þá kom fram að mikil leit hefði verið gerð að manninum auk þess sem tæknideild lögreglu var kölluð á vettvang.

Í úrskurði héraðsdóms nú er vísað í greinargerð lögreglu en þar segir að stúlkan hafi vaknað við snertingu mannsins þar sem hann stóð við rúm hennar. Á maðurinn meðal annars að hafa strokið henni um bakið og farið inn undir nærbol hennar og niður á mjöðm og rassinn.

Flúði inn á bað undan manninum

Stúlkan reyndi þá að færa sig fjær honum, að því er kemur fram í greinargerð lögreglu, en maðurinn þá farið upp í rúmið til hennar og reynt að strjúka henni meira.

„Stúlkan hafi þá náð að fara inn á baðherbergi og læsa að sér, en kærði hafi þá náð að opna hurðina utan frá, en stúlkunni tekist að læsa aftur að sér. Kærði hafi svo farið inn í eldhús og síðan út úr húsinu. Tekin hafi verið skýrsla af stúlkunni í Barnahúsi 22. maí sl. og hafi hún lýst atvikum á sama hátt og hún hafði áður gert. Að hennar sögn hafi hún verið hrædd þegar atvikið átti sér stað og hafi hún átt erfitt með að tjá sig um atvikið og liðið mjög illa yfir því.

Síðar í greinargerð lögreglu segir að fjórum sinnum sömu nótt hafi lögreglu verið tilkynnt um mann sem hafi verið að kíkja á glugga eða reyna að komast inn í hús í [...]. Telji lögregla að um sé að ræða kærða í öllum tilfellum. Þau mál séu einnig til rannsóknar, auk nokkurra annarra sambærilegra mála þar sem rökstuddur grunur leiki á um að kærði eigi í hlut,“ eins og greint er frá í greinargerð lögreglu.

Einnig grunaður um blygðunarsemisbrot

Maðurinn viðurkenndi við skýrslutöku hjá lögreglu að hafa farið inn í hús hjá ákveðinni knu sem hann hefði hitt fyrr um kvöldið. Þá hefði hún staðið við glugga og sent honum koss með vörunum. Þá hafi hann farið inn í húsið og kvaðst hann kannast við að hafa „klappað stúlkunni.“ Hann neitaði því hins vegar að það hafi verið í kynferðislegum tilgangi.

„Hann hafi síðan hafa áttað sig á þetta væri ekki áðurnefnd A. Þá hafi kærði ekki kannast við að hafa reynt að komast inn á baðherbergi til stúlkunnar. Þegar hann hafi farið út úr húsinu hefði hann tekið með sér flösku af gini. Kærði hafi sagst hafa fengið fyrirboða eða sýn um að kona í húsinu hefði boðið honum að koma inn og því hefði hann farið inn í húsið.“

Þá er maðurinn grunaður um að hafa einnig farið óboðinn inn í hús þann 29. mars síðastliðinn og verið þar með kynferðislegar athugasemdir í garð húsráðanda. Þá var tvívegis þá nótt sem hann er grunaður um að hafa farið inn til stúlkunnar tilkynnt um mann sem var að reyna að komast inn um glugga á heimili. Auk þess er maðurinn grunaður um blygðunarsemisbrot þar sem talið er að hann hafi gægst inn um baðherbergisglugga þar sem kona stóð ber að ofan. Maður mun því áfram sæta gæsluvarðhaldi, eða til 7. júlí næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×