Fótbolti

Glódís Perla: Ef maður ber saman hæfileika Mörtu við hjartað sem við höfum, þá vinnum við

Elías Orri Njarðarson skrifar
Íslenska byrjunarliðið í leiknum í kvöld.
Íslenska byrjunarliðið í leiknum í kvöld. vísir/anton
Glódís Perla Viggósdóttir stóð vaktina vel í vörn Íslands á móti sterku liði Brasilíu á Laugardalsvelli í kvöld.

Þrátt fyrir 0-1 tap var fullt af jákvæðum hlutum fyrir leikmenn Íslands til þess að taka með sér á Evrópumótið í Hollandi í næsta mánuði.

„Við vildum einmitt fá góðan mótherja sem við gætum þróað okkar leik á móti og séð hvernig þetta kerfi virkar á móti svona vel spilandi liði,“ sagði Glódís.

Ísland hefur spilað síðustu leiki í leikkerfinu 3-4-3 sem hefur hentað liðinu mjög vel.

„Mér fannst við spila frábæran leik þrátt fyrir að hafa tapað 0-1 og það er fullt sem við getum byggt ofan á og tekið með okkur á EM í sumar,“ sagði Glódís en Ísland verður í sterkum riðli á Evrópumótinu í Hollandi í sumar en þar munu þær mæta Frakklandi, Austurríki og Sviss.

Marta, leikmaður brasilíska landsliðsins og ein besta knattspyrnukona heims, gerði útslagið í kvöld með snyrtilegu marki á 67. mínútu en framan af í leiknum réð íslenska vörnin vel við Mörtu og aðra leikmenn brasilíska liðsins.

„Marta er náttúrulega frábær leikmaður og hefur verið í mörg ár og maður verður að bera ákveðna virðingu fyrir henni en mér fannst við sýna inn á vellinum að þessar stelpur eru ekkert með meiri fótboltahug heldur en við. Mér fannst við eiga alla baráttunna inni á vellinum og ef maður ber saman hæfileika Mörtu við hjartað sem við höfðum hér í dag – þá vinnum við,“ sagði Glódís að lokum.


Tengdar fréttir

Freyr: Þetta er ótrúlegt

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna. Ég sagði það fyrir leikinn og ætla standa við það að úrslitin skipta ekki máli. Frammistaðan var geggjuð,“ sagði glaðbeittur þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, Freyr Alexandersson, í samtali við Vísi í leikslok.

Margrét Lára missir af EM

Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, er með slitið krossband í hné og verður því ekki með á EM í Hollandi sem hefst í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×