Erlent

Tíststormur Trump gæti skaðað „ferðabann“ forsetans

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump gæti hafa komið sér í klandur með bráðlæti á samskiptamiðlum.
Donald Trump gæti hafa komið sér í klandur með bráðlæti á samskiptamiðlum. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti lá ekki á skoðunum sínum um dómstóla, sitt eigið dómsmálaráðuneyti og meðferð þeirra á fyrirhuguðu ferðabanni hans gegn borgurum sex múslimalanda í röð tísta sem hann sendi frá sér í morgun. Líklegt er talið að ummæli Trump komi til með að hafa áhrif á meðferð ferðabannsins fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna.

Tilskipanir Trump um ferðabann af þessu tagi hefur í tvígang verið hafnað af bandarískum alríkisdómstólum. Hæstiréttur Bandaríkjanna mun taka það fyrir á næstunni. Embættismenn stjórnar Trump hafa fram að þessu lagt sig í líma við að kalla aðgerðina ekki bann.

„Fólk, lögfræðingarnir og dómstólarnir geta kallað það hvað sem þeir vilja en ég kalla það það sem við þurfum og það sem það er, FERÐABANN!“ básúnaði Trump á Twitter þvert á anda þeirra skilaboð sem stjórn hans hefur reynt að senda út.

Í kjölfarið fylgdu tíst þar sem hann gagnrýndi sitt eigið dómsmálaráðuneyti fyrir að hafa lagt fram útþynnt og „pólitískt rétthugsandi“ ferðabann eftir að upphaflegu banni hans var hafnað af dómstólum í febrúar, þrátt fyrir að það hafi verið hann sjálfur sem skrifaði undir tilskipunina um seinni útgáfuna af ferðabanninu.

Ummæli Trump voru grundvöllur lögbanns á ferðabannið

Bandaríska dagblaðið Washington Post fullyrðir að nær öruggt sé að andstæðingar ferðabannsins muni leggja tíst Trump fram sem gögn í málinu fyrir hæstarétti. Stjórn Trump áfrýjaði málinu til hæstaréttarins til að fá lögbanni á ferðabannið aflétt. 

Alríkisdómstóllinn sem felldi seinna ferðabann Trump úr gildi vísaði sérstaklega til tísta forsetans og viðtala í fjölmiðlum í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni.

Talsmaður bandaríska dómsmálaráðuneytisins neitaði að tjá sig þegar blaðið leitaði viðbragða við tístum forsetans.


Tengdar fréttir

Lögbann sett á nýtt ferðabann Trump

Alríkisdómari í Hawaii hefur sett tímabundið lögbann á nýtt ferðabann Donald Trump Bandaríkjaforseta sem taka átti gildi eftir nokkra klukkutíma.

Dómaraefnið ósátt við tíst Trump um dómskerfið

Neil Gorsuch, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt sem dómara við við Hæstarétt Bandaríkjanna er ósáttur við tíst forsetans um dómskerfi Bandaríkjanna. CNN greinir frá.

Dómsmálaráðuneytið ver ferðabann Trumps

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir ferðabann Donalds Trump Bandaríkjaforseta vera löglegt og hvetur áfrýjunardómstól til að festa tilskipunina aftur í gildi.

Ferðabann Trumps ekki samþykkt

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur ákveðið að tilskipun Trumps um ferðabann sem meinar íbúum sex múslimalanda inngöngu inn í Bandaríkin, muni ekki taka gildi. Með því staðfestir dómstólinn ákvörðun neðra dómstigs í Maryland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×