Enski boltinn

Nýi Liverpool-maðurinn skaut 20 ára lið Englands í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominic Solanke var hetja enska 20 ára liðsins í gær.
Dominic Solanke var hetja enska 20 ára liðsins í gær. Vísir/Getty
Það hefur verið talsvert rætt og skrifað um stöðu ungra enskra leikmanna í ensku úrvalsdeildinni þar sem bestu liðin eru dugleg að kaupa til síns stjörnuleikmenn frá öðrum löndum.

Enska landsliðið hefur síðan verið í miklu basli á stórmótum og töpuðu meðal annars fyrir litla Íslandi á Evrópumótinu í Frakklandi síðasta sumar.

Englendingar fögnuðu því gríðarlega fréttum gærdagsins þegar 20 ára landslið þjóðarinnar komst í undanúrslit HM U-20.

England vann þá 1-0 sigur á Mexíkó í átta liða úrslitum keppninnar sem fer fram í Suður-Kóreu. Þetta er í fyrsta sinn í 24 ár sem enska landsliðið kemst svona langt í þessari keppni.

Síðasta enska landsliðið til að komast í undanúrslit  HM U-20 í fótbolta karla var liðið sem spilaði á heimsmeistaramótinu í Ástralíu 1993. Frægustu leikmenn þessa liðs sem endaði í þriðja sæti voru Nicky Butt og Nick Barmby.

Hetja Englendinga í leiknum í gær var Dominic Solanke sem mun ganga til liðs við Liverpool 1. júlí næstkomandi. Solanke hefur spilað með Chelsea en ákvað að fara á frjálsri sölu og semja við Liverpool.

Solanke skoraði eina mark leiksins skömmu eftir hálfleik þegar hann fékk tíma til að athafna sig í teignum eftir sendingu frá fyrirliðanum Lewis Cook sem spilar með Bournemouth.

Aðrir bestu leikmenn liðsins eru þeir Ademola Lookman og Jonjoe Kenny frá Everton og svo Josh Onomah frá Tottenham. Onomah fékk rautt í leiknum við Mexíkó og missir því að næsta leik.

England mætir Ítalíu í undanúrslitaleiknum á fimmtudaginn en í hinum undanúrslitaleiknum mætast Úrúgvæ og Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×