Enski boltinn

Kvennaboltinn mætir afgangi hjá knattspyrnusambandinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hayes á bekknum hjá Chelsea.
Hayes á bekknum hjá Chelsea. vísir/getty
Þjálfari kvennaliðs Chelsea, Emma Hayes, er verulega ósátt við enska knattspyrnusambandið og hvernig það stendur að málum í efstu deild kvenna.

Hayes hefur stýrt liði Chelsea síðan 2012 og þekkir því vel til. Hún er nú búin að fá nóg og sérstaklega er hún ósátt við hvernig staðið er að dómaramálum í deildinni.

„Þeir sem dæma hjá okkur hafa ekki fengið neina þjálfun. Þeir hittast ekki fyrir mótið, hafa engan aðgang að myndböndum af leikjum þannig að þeir geta ekki einu sinni farið yfir eigin frammistöðu. Svo fá þeir helmingi minna borgað en þeir fengju í neðri deildum hjá körlunum,“ sagði Hayes.

„Þeir þekkja ekki einu sinni leikmennina. Svo fá þeir ekki stig. Ekki klapp á bakið eða refsað. Það er ekkert umbunarkerfi og þeir hjakka því bara í sama farinu. Hvar er hvatningin til að standa sig vel þar? Það er mikill munur á karla- og kvennabolta og þeir skilja ekki leikinn hjá okkur.“

Hayes gagnrýnir líka að 500-600 dómarar komi til greina í deildina og þann fjölda þurfi að minnka. Fá færri dómara til að dæma í deildinni sem geti þar með náð stöðugleika og jafnvel þekkt 2-3 leikmenn.

Enska knattspyrnusambandið vísar þessari gagnrýni á bug og segist aldrei hafa sett eins mikinn pening í kvennaboltann og í ár.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.