Erlent

Hæstiréttur Indlands tekur „skyndiskilnað“ innan íslam til umfjöllunar

Atli Ísleifsson skrifar
Búist er við réttarhöldum ljúki 19. maí og að dómur verði birtur nokkrum vikum síðar.
Búist er við réttarhöldum ljúki 19. maí og að dómur verði birtur nokkrum vikum síðar. Vísir/Getty
Hæstiréttur Indlands hefur formlega tekið fyrir nokkur mál sem snúa öll að möguleikanum á „skyndiskilnaði“ innan íslam. Mun dómurinn kveða upp hvort að sú iðja sem gengur undir nafninu „þrefalt talaq“ sé grundvallaratriði í íslamstrú og hvort það standist stjórnarskrá landsins.

Í frétt BBC kemur fram að Indland sé eitt fárra ríkja í heiminum þar sem karlmaður sem er íslamstrúar getur skilið við eiginkonu sína með því að segja „talaq“ upphátt þrisvar í röð, en orðið þýðir skilnaður. Andstæðingar segja fyrirkomulagið fela í sér mismunun.

Ýmsir hópar múslima hafa mótmælt ákvörðun Hæstaréttar Indlands að taka málið til umfjöllunar og segja að hann eigi ekki að skipta sér af trúmálum. Ríkisstjórn Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, styður þó aðkomu hæstaréttar að málinu.

Fimm dómarar í Hæstarétti Indlands munu taka afstöðu í málinu þar sem einn dómarinn er Hindútrúar, einn síkatrúar, einn kristinn, einn sóróisti og einn múslimi.

Búist er við réttarhöldum ljúki 19. maí og að dómur verði birtur nokkrum vikum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×