Erlent

Færast nær draumnum um langdrægar eldflaugar

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflaug af gerðinni Hwasong-12 sem skotið var á loft á laugardaginn.
Eldflaug af gerðinni Hwasong-12 sem skotið var á loft á laugardaginn. Vísir/AFP
Eldflaugarskot Norður-Kóreu á laugardaginn sýnir að tilraunir einræðisríkisins hafi heppnast og að ríkið sé að ná árangri í þróun langdrægra eldflauga sem mögulega gætu borið kjarnorkuvopn til Bandaríkjanna. 

Ríkismiðill Norður-Kóreu, KCNA, sagði eldflaugina hafa farið um 787 kílómetra og náð 2.111,5 kílómetra hæð. Samkvæmt Reuters er það í samræmi við yfirlýsingar frá Suður-Kóreu og Japan og flaug eldflaugin, sem er af gerðinni Hwasong-12, lengra og hærra en eldflaugin sem skotið var á loft í febrúar.

Það var síðasta tilraun Norður-Kóreu sem heppnaðist. Tveimur eldflaugum var skotið á loft í síðasta mánuði, en þær tilraunir misheppnuðust báðar.

Hér má sjá hvaða markmiði yfirvöld Norður-Kóreu vinna að. Það er að þróa eldflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn til Bandaríkjanna.Vísir/GraphicNews
Þá sagði í yfirlýsingu KCNA að eldflauginni hefði vísvitandi verið miðað hátt á loft, svo hún færi ekki inn fyrir lofthelgi annarra ríkja.

Gæti náð til Guam

Sérfræðingar segja að ef eldflauginni hefði verið skotið á loft í hefðbundna stefnu gæti hún ferðast minnst fjögur þúsund kílómetra. Það er besti árangur Norður-Kóreu hingað til og með þessum eldflaugum væri hægt að gera árás á herstöð Bandaríkjanna í Guam.

Yfirlýst markmið Norður-Kóreu er að þróa langdrægar eldflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn til Bandaríkjanna. Það fæli í sér minnst átta þúsund kílómetra ferðalag. Auk þess þyrfti ríkið að þróa kjarnorkuvopn sem eru í senn kröftug og smá, svo hægt sé að koma þeim fyrir í eldflaugum. Þá þyrftu sprengjurnar að vera verulega harðgerðar til þess að þola hitann, titringinn og álagið sem fylgir því að fljúga aftur inn í gufuhvolfið.

Norður-Kórea segir að þeim hafi tekist að þróa slík kjarnorkuvopn, en það hefur ekki verið staðfest. Sérfræðingar segja hins vegar að ferill eldflaugarinnar sýni að slík tilraun hafi verið framkvæmd um helgina.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun hittast á morgun til að ræða nýjasta eldflaugarskot Norður-Kóreu.


Tengdar fréttir

Norður-Kórea skaut nýrri eldflaug á loft

Yfirvöld Norður-Kóreu skutu eldflaug á loft í dag í grennd við Kusong, norðvestan við höfuðborg landsins, Pyongyang. Flaugin er talin hafa flogið 700 km og hafnað í Japanshafi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.