Erlent

Brasilíuforseti hafnar ásökunum um mútur

Michel Temer tók við forsetaembættinu af Dilmu Roussef.
Michel Temer tók við forsetaembættinu af Dilmu Roussef. Vísir/AFP
Michel Temer, forseti Brasilíu, þvertekur fyrir ásakanir sem bornar eru á hann í blaðagrein þar sem því er haldið fram að hann hafi heimilað greiðslur sem ætlað var að borga vitni í spillingarmáli til að fá það til að þegja.

Greiðslurnar áttu að fara til stjórnmálamannsins Eduardo Cunha, sem var fangelsaður í mars fyrir spillingu, peningaþvætti og skattsvik.

O Globo, eitt stærsta dagblað Brasilíu, segist hafa upptökur undir höndum þar sem Temer forseti ræðir greiðslurnar við þekktan kaupsýslumann.

Spillingarmál hafa skekið brasilíska stjórnkerfið undanfarin misseri og nú er einn þriðji hluti ríkisstjórnarinnar grunaður um spillingu og til rannsóknar.

Temer, sem tók við forsetaembættinu af Dilmu Roussef sem hrökklaðist frá völdum í skugga spillingarmála, gæti því átt erfiða daga fyrir höndum en þingmenn eru þegar farnir að kalla eftir kosningum í landinu.

Roussef hefur sjálf sakað Temer um að standa á bakvið aðförina að sér en hún hefur ætið haldið fram sakleysi sínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×