Erlent

Forseti Brasilíu sakaður um að hafa tekið við háum mútum

Anton Egilsson skrifar
Michel Temer, forseti Brasilíu.er borinn þungum sökum.
Michel Temer, forseti Brasilíu.er borinn þungum sökum. Vísir/GETTY
Michel Temer, forseti Brasilíu, er borinn þungum sökum en hann er sagður hafa tekið við mútum og notað þær til að fjármagna kosningabaráttu hans og forvera hans í starfi, Dilma Rousseff.

Temer hefur neitað ásökununum en upphæðin sem um ræðir er talin nema 2,9 milljónum dollara eða tæpum 325 milljónum íslenskra króna.

Dómari við æðsta dómstól Brasilíu tjáði The Guardian að ásakanirnar gætu orðið til þess að rannsókn muni fara fram á hvort að múturnar hafi verið notaðar í að kosta forsetaframboð Dilmu Rousseff en Temer var varaforsetaefni hennar. Verði það staðreynt gæti það leitt til embættismissis hans.

Mjög óvinsæll í heimalandinu

Þessar fregnir koma eflaust ekki til með að bæta stöðu hins 75 ára Temer en hann er mjög óvinsæll í heimalandinu. Í skoðunakönnun sem birtist í gær kom fram að 63 prósent þjóðarinnar vilja að Temer segi af sér og að kosið verði um nýjan forseta.

Temer tók við stjórnartaumunum í Brasilíu í maí á þessu ári eftir að Dilma Rousseff var vikið tímabundið úr embætti. Var hún borin þeim sökum að hafa hagrætt fjárlögum landsins til að hylma yfir vaxandi tekjuhalla ríkisins. 

Öldungadeild brasilíska þingsins kaus svo um embættisákæru hennar í ágúst síðastliðnum og var henni þá endanlega vikið úr starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×