Erlent

Le Pen viðurkennir ósigur: Emmanuel Macron næsti forseti Frakklands

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vísir/EPA
Marine Le Pen hefur viðurkennt ósigur í forsetakosningunum í Frakklandi.

Hún ávarpaði stuðningsmenn sína og blaðamenn skömmu eftir að fyrstu tölur í forsetakosningunum voru birtar en samkvæmt þeim hlaut hún 34,5 prósent atkvæða. Mótframbjóðandi hennar, Emmanuel Macron, fékk 65,5 prósent.

Le Pen sagðist hafa rætt við Macron í síma og óskað honum góðs gengis í nýju embætti.

Macron hefur sent frá sér örstutta yfirlýsingu og hefur enn ekki ávarpað fólk opinberlega.

„Nýtt blað er brotið í okkar löngu sögu í kvöld. Mín ósk er að það einkennist af von og endurnýjuðu sjálfstrausti,“ segir hann í yfirlýsingu sinni til AFP.

Áður höfðu skoðanakannanir spáð Macron sigri, en hann mældist með rúmlega sextíu prósent fylgi samkvæmt niðurstöðum fjögurra skoðanakannanna sem hafa verið gerðar í dag.

Sigur hans þykir mikið afrek, en þangað til nýlega var hann óþekktur og stjórnmálaflokkur hans, En Marche!, var stofnaður fyrir ári síðan.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands hefur nú þegar sent Macron hamingjuóskir.

„Forsætisráðherrann óskar forsetaefninu Macron innilega til hamingju með árangurinn. Frakkland er einn af okkar nánustu bandamönnum og við hlökkum til að vinna með nýja forsetanum að okkar sameiginlegu baráttuefnum,“ segir í yfirlýsingu May. 

Hér fyrir neðan má sjá myndband af fagnaðarlátunum þegar fyrstu tölur voru tilkynntar á stuðningsfundi Macron við Louvre safnið í París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×