Innlent

Reyna að varpa ljósi á dularfulla verðmætabjörgun norska rannsóknaskipsins

Gissur Sigurðsson skrifar
Mynd af Seabed Constructor sem tekin var um borð í varðskipinu Þór.
Mynd af Seabed Constructor sem tekin var um borð í varðskipinu Þór. Landhelgisgæslan
Lögreglan er enn að komast til botns í því hvað áhöfnin á rannsóknaskipinu Seabed Constructor var að kanna í íslensku lögsögunni þegar varðskip vísaði því til hafnar í Reykjavík um helgina. Lögreglan tók skýrslur af skipverjum fram á kvöld í gær, og segja þeir að rannsóknir þeirra sé liður i verðmætabjörgun, en óljóst er, um hvaða verðmæti ræðir, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns, sem stjórnar rannsókninni.

Þegar varðskipið kom að rannsóknaskipinu var það statt við flak af þýska flutningaskipinu Minden, sem var sökkt í síðari heimsstyrjöldinni, en opinberlega var farmur þess trjákvoða og því ekki eftir miklum verðmætum að slægjast, ef það er rétt.

Skipið er enn í Reykjavíkurhöfn, en ekki beinlínis í farbanni að sögn Gríms, heldur var gert samkomulag við skipstjórann og útgerðina um að skipið héldi ekki úr höfn fyrr en málið væri leyst. Línur myndu væntanlega skýrast í dag.

Það skýrist þá væntanlega í dag hvort skipverjar hafa sýnt af sér refsivert athæfi og hvort og hvenær skipið fær aftur að láta úr höfn. Lögmaður leigutaka skipsins vill ekki tjá sig um málið opinberlega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×