Erlent

Flynn greindi ekki frá greiðslum frá rússneskum fyrirtækjum

Anton Egilsson skrifar
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump.
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trump. Vísir/AFP
Michael Flynn, fyrrum ráðgjafi Donalds Trump í þjóðaröryggismálum, lét hjá líða að gera grein fyrir greiðslum sem hann fékk frá rússneskri sjónarvarpsstöð og öðru fyrirtæki tengdu Rússlandi í greinargerð um launagreiðslur sínar sem hann undirritaði í febrúar síðastliðnum. Reuters fjallar um þetta.

Í tilkynningu sem barst frá Hvíta húsinu í gær er greint frá því að greiðslurnar komi annars vegar frá rússnesku sjónvarpsstöðinni RT og hins vegar flugfélaginu Volga-Dnepr. Eru bæði fyrirtækin nátengd rússneskum stjórnvöldum.

Greindi Flynn frá greiðslunum í greinargerð sem hann undirritaði á föstudag en þar kemur fram að hann hafi tekið við greiðslunum fyrir að halda ræður í fyrirtækjunum tveimur. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve háar greiðslurnar voru en þær nema að minnsta kosti fimm þúsund dollurum.

Það vakti mikla athygli þegar upp komst að Flynn hefði átt í talsverðum samskiptum við Rússa áður en Trump tók við embætti bandaríkjaforseta. Sagði Flynn af sér í kjölfarið að beiðni Donalds Trump. Hann hafði einungis setið í embætti í 24 daga.  

Á Flynn að hafa gefið varaforsetanum Mike Pence rangar upplýsingar varðandi samskipti sín við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, Sergey I. Kislyak, skömmu fyrir áramót.


Tengdar fréttir

Flynn fer fram á friðhelgi gegn vitnisburði

Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump er sagður sækjast eftir friðhelgi frá saksókn gegn því að bera vitni um tengsl forsetans við Rússland.

Afsögn Flynn ekki endirinn á vandræðunum

Demókratar fara fram á ítarlega rannsókn á tengslum hans við yfirvöld í Rússlandi og að Hvíta húsið segi til um hvað og hvenær þeir hafi vitað um málið.

Trump kennir fjölmiðlum um afsögn þjóðaröryggisráðgjafa

Öldungadeildarþingmenn bæði Repúblikana og Demókrata í Bandaríkjunum þrýsta á að að ítarleg rannsókn fari fram á samskiptum fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump forseta og annarra starfsmanna framboðs hans við rússnesku leyniþjónustuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×