Enski boltinn

Andy Cole fékk nýtt nýra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrew Cole.
Andrew Cole. Vísir/Getty
Andrew Cole, fyrrum framherji Manchester United og Newcastle í ensku úrvalsdeildinni, fór í nýrnaígræðslu á dögunum og er því kominn með nýtt nýra.

Andrew Cole lék á sínum tíma meðal annars með Arsenal, Newcastle United, Blackburn Rovers, Fulham, Manchester City, Portsmouth og Sunderland en hann er þriðji markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með 187 mörk.

Cole gekkst undir aðgerðina á Manchester Royal Infirmary sjúkrahúsinu. Cole glímir við gauklasjúkdóm (Focal segmental glomerulosclerosis) sem orsakar nýrnabilun hjá fullorðnum.  Hann er 45 ára gamall.

Þekktastur er Andrew Cole þó fyrir tíma sinn sem leikmaður Manchester United. Cole er starfandi sendiherra Manchester United en hann mun vera í fríi fá því starfi á meðan hann jafnar sig eftir aðgerðina.

„Andrew og fjölskylda hans vill þakka klúbbnum og stuðningsmönnum fyrir stuðninginn. Þau biðla líka til allra að hann fái frið til að halda endurhæfingu sinni áfram,“ segir í yfirlýsingu á heimasíðu Manchester United.

Andrew Cole vann fimm Englandsmeistaratitla með Manchester United  (1996, 1997, 1999, 2000, 2001) á þeim sex árum sem hann spilaði á Old Trafford frá 1995 til 2001.

Cole var í lykilhlutverki á 1998-98 tímabilinu þegar United vann þrennuna en hann skoraði þá 24 mörk í 50 leikjum í öllum keppnum. Andrew Cole skoraði alls 93 mörk í 195 deildarleikjum með Manchester United.

Andrew Cole var markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar 1993-94 þegar hann skoraði 34 deildarmörk fyrir Newcastle en þetta tímabil var hann einnig kosinn besti ungi leikmaður deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×