Innlent

Engey komin til Reykjavíkur

Engey RE 91
Engey RE 91 ÁE
Einn tæknivæddasti ísfisktogari landsins, Engey RE 91, lagðist að bryggju í Reykjavík í dag og var formlega vígður við hátíðlega athöfn. Tilkoma skipsins er liður í 7 milljarða fjárfestingu HB Granda og forsætisráðherra segir frábært að sjá slíka fjárfestingu í sjávarútveginum sem ýtir undir frekari verðmætasköpun í greininni.

Engey kom í fylgd Ásbjarnar RE 50 til hafnar í Reykjavík um hádegisbilið í dag og segja má að með uppátækinu hafi kynslóðaskipti í togaraflota HB Granda verið undirstrikuð. Engey er einn tæknivæddasti togari landsins. Til að mynda er öflugt myndavélakerfi um borð þar sem hver einasti fiskur er myndaður og tegundaflokkaður.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda segir að um mikil tímamót sé að ræða.

„Þetta hefur mikið að segja fyrir aðbúnað áhafnar og gæði. Það er ekki lengur boðlegt að hafa aðstöðu eins og hún var í Ásbirni. Þetta verkefni losar 7 milljarða.“

Hlutur Engeyjar í heildarfjárfestingunni er um tveir milljarðar og Bjarni Benediktsson segir mikilvægt að umskipti séu að eiga sér stað í fiskiskipaflotanum.

„Glæsilegt skip og frábært að sjá nýja fjárfestingu inn í sjávarútveginum sem byggir undir meiri verðmætasköpun“. Segir Bjarni.

Það kom í hlut Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegsráðherra, að gefa togaranum formlega nafnið Engey RE 91.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×