Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að Philippe Coutinho hafi misst þrjú kíló á þremur dögum fyrir leikinn gegn Stoke í gær en hann hafi verið veikur í vikunni.
Coutinho var frábær í leiknum í gær og skoraði meðal annars mark en Liverpool vann leikinn 2-1. Brassinn kom inn á í hálfleik og breytti leik Liverpool.
Klopp sagði í miðri viku að Coutinho gæti ekki einu sinni ferðast með liðinu til Stoke en það breyttist skyndilega.
„Það var aldrei planið að hann myndi koma með okkur í þennan leik en maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast,“ segir Klopp í samtali við Sky Sports.
„Hann missti þrjú kíló á þremur dögum í vikunni. Það eru eflaust margir sem myndu vilja missa svona mörg kíló á svona stuttum tíma, en það er ekki gott fyrir atvinnumann í fótbolta.“
Klopp: Coutinho missti þrjú kíló á þremur dögum
Stefán Árni Pálsson skrifar
