Fótbolti

Björn Bergmann tók ekki eftir stafsetningarvillunni: „Tek hana með mér heim“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson var eðlilega ánægður eftir sigur Ísland gegn Kósóvó í undankeppni HM 2018, en Björn skoraði fyrsta mark leiksins. Það var hans fyrsta A- landsliðsmark.

„Þetta var rosalega mikilvægur sigur fyrir okkur og að fá þessi þrjú stig í þessari baráttu sem við erum í. Að skora var svo bara frábært," sagði Björn í samtali við íþróttadeild 365 í leikslok.

„Þetta var ekki fallegur leikur, en við unnum þetta á baráttunni og liðsandanum. Mér fannst við standa saman og eiga þetta skilið."

Björn segir að þeir hafi gert sér grein fyrir því að þetta yrði mikil barátta og Björn var sáttur við framlag framherjana.

„Við vissum þetta fyrir leikinn að þetta yrði vinnsla allan leikinn og svo er ég auðvitað í miðju undirbúningstímabili núna þannig að ég var alveg búinn þegar ég fór útaf."

Þessi treyja verður sannarlega minjagripur.Vísir/E. Stefán
„Mér fannst við Viðar vera duglegir þarna frammi og ég gerði mitt," en missti hann aldrei sjónar á boltanum þegar hann fylgdi á eftir skoti Gylfa og skoraði sitt fyrsta mark?

Sjá einnig: Björn Bergmann fjórði bróðirinn sem skorar fyrir landsliðið

„Nei, ég sá skotið hjá Gylfa og ég vonaði að það færi inn, en ég var alltaf klár. Þú veist að Gylfi skýtur á fjær þarna þá ertu kominn og pikkar honum inn."

Þessi sigur var gífurlega mikilvægur fyrir liðið og stöðuna í riðlinum, en Björn segir að leikmenn ætli að fara sér hægt í framhaldinu.

„Við tökum einn dag í einu. Við tökum næsta leik í júní og það verður stórleikur. Við gerum okkar besta," en liðið mætir Króatíu á Laugardalsvelli í júní.

Blaðamaður Vísis gat ekki sleppt Birni án þess að spyrja hann út í stafsetningarvilluna á búningi hans. Það var einu s-i ofaukið á búningnum - þar sem stóð Sigurðarsson en átti auðvitað að vera Sigurðarson.

„Ég tók ekki eftir því," sagði Björn Bergmann og hló mikið: „Ég tek hana með mér heim!"


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×