Erlent

Glóandi símalínur Umhverfisstofnunar eftir afneitun forstjórans

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump valdi Scott Pruitt, afneitara loftslagsvísinda, til að stjórna Umhverfisstofnun Bandaríkjanna.
Donald Trump valdi Scott Pruitt, afneitara loftslagsvísinda, til að stjórna Umhverfisstofnun Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Beinn sími forstjóra Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA) hefur ekki hætt að hringja eftir að hann dró í efa vísindalega þekkingu á orsökum loftslagsbreytinga í sjónvarpsviðtali í vikunni. Starfsmenn stofnunarinnar, sem ekki vilja láta nafns síns getið, segja að slíkur fjöldi símtala hafi borist á föstudag að setja hafi þurft upp bráðabirgðasímsvörunarmiðstöð.

Skipan Scott Pruitt sem forstjóri Umhverfisstofnunarinnar var umdeild þar sem hann hefur lengi dregið í efa að menn beri ábyrgð á þeirri hnattrænu hlýnun sem nú á sér stað á jörðinni þrátt fyrir samhljóða álit vísindamanna um það.

Sem dómsmálaráðherra Oklahoma-ríkis tók Pruitt jafnframt þátt í fjölda mála gegn EPA til að hnekkja reglum sem ætlað var að draga úr losun gróðurhúsalofttegundanna sem valda loftslagsbreytingum.

„Ég tel að það sé mjög erfitt að mæla með nákvæmni [áhrif] gjörða manna á loftslagið og það eru gríðarlega deildar meiningar um hversu mikil þau áhrif eru, svo nei, ég er ekki sammála því að þær séu aðalorsakavaldur þeirrar hnattrænu hlýnunar sem við sjáum,“ sagði Pruitt í viðtali við MSNBC á fimmtudag.

Fáheyrt að svo margir kvarti í forstjóra ríkisstofnunar

Ummælin vöktu harða gagnrýni vísindamanna og fyrrverandi forstjóra EPA enda eru þau í engu samræmi við veruleikann, svo ekki sé minnst á upplýsingar sem koma fram á vefsíðu stofnunarinnar sjálfrar eins og kemur fram í frétt Washington Post.

Eftir að Pruitt lét ummælin falla hefur símtölunum til EPA rignt inn. Talskona stofnunarinnar segir við bandaríska blaðið að hún hafi skráð um þrjú hundruð símtöl og tölvupósta. Washington Post segir ekki óalgengt að kjósendur hafi samband við þingmenn til þess að lýsa óánægju sinni sé fáheyrt að kvartanir beinist að forstjóra ríkisstofnunar í þessum mæli.

Bandaríska Haf- og loftslagsstofnunin (NOAA) greindi frá því á föstudag að hraði aukningar koltvísýrings í lofthjúpi jarðar á síðasta ári hafi jafnað met sem sett var árið áður. Aukningin er fordæmalaus í sögu beinna mælinga af þessu tagi. Síðustu tvö ára hafa sömuleiðis verið þau heitustu á jörðinni frá því að mælingar hófust á 19. öld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×