Innlent

Nýta lágfjöru til leitar að Arturi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Leit að Arturi Jarmoszko, 25 ára karlmanni frá Póllandi, mun hefjast að nýju í hádeginu í dag. Leitað verður á sama svæði og í gær.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi sem stýrir rannsókn á hvarfi Arturs, segir að leitarmenn muni nýta sér það að háfjara verði í hádeginu. Hann reiknar einnig með því að þyrla Landhelgisgæslunnar muni taka þátt í leitinni.

Fjörur verða gengnar frá Nauthólsvík að Álftanesi í von um að finna vísbendingar um hvarf Arturs en ekkert hefur spurst til hans frá 1. mars.

Guðmundur segir að engar nýjar vísbendingar hafi borist vegna málsins. Í gær óskaði lögregla eftir því að fá upptökur úr öryggismyndavélum frá fyrirtækjum í vesturbæ Kópavogs en símagögn úr farsíma Arturs benda til þess að sími hans hafi komið inn á farsímasendi þar. Guðmyndur segir að verið sé að vinna úr slíkum upplýsingum sem hafi borist.

Áhersla er lögð á að kortleggja ferðir Arturs. Málið er rannsakað sem mannshvarf og ekki er grunur um refsiverða háttsemi. Fólk er beðið um að svipast um í sínu nærumhverfi, t.d. í vinnuskúrum, geymslum og útihúsum.

Talið er að Artur sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, í bláum gallabuxum og í hvítum strigaskóm. Hann er grannvaxinn, 186 sentimetrar á hæð, með græn augu og stutt, dökkt hár.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

Allt kapp lagt á leit að Arturi

Formleg leit hófst í dag að Arturi Jarmoszko, 25 ára karlmanni frá Póllandi, og leituðu hátt í 70 björgunarsveitarmenn á stóru svæði í kring um vesturbæ Kópavogs. Ekkert hefur spurst til Arturs síðan um mánaðamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×