Innlent

Hefja formlega leit að Arturi í Kópavogi og við strandlengjuna frá Gróttu að Álftanesi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Síðast sást til Arturs Jarmozko rétt fyrir miðnætti í Lækjargötu í miðbæ Reykjavíkur þann 28. febrúar síðastliðinn.
Síðast sást til Arturs Jarmozko rétt fyrir miðnætti í Lækjargötu í miðbæ Reykjavíkur þann 28. febrúar síðastliðinn. Vísir/Loftmyndir.is
Formleg leit að Artur Jarmoszko, sem saknað hefur verið frá því um síðustu mánaðamót, er við það að hefjast. Upphaf leitar er í vesturbæ Kópavogs, en vettvangur leitarinnar tekur mið af upplýsingum úr símagögnum sem lögreglan hefur aflað.

Samkvæmt upplýsingum frá svæðisstjórn Landsbjargar er einnig leitað við strandlengjuna frá Gróttu og að Álftanesi. Notast er við báta og dróna auk þess sem að gönguhópar taka þátt í leitinni. Reiknað er með að allt að 80 björgunarsveitarmenn taki þátt í leitinni, til þess að byrja með.

Lögreglan hefur fundað með Landsbjörgu og hafa björgunarsveitir verið kallaðar út til aðstoðar. Síðast var vitað um ferðir Arturs í miðborg Reykjavíkur seint á þriðjudagskvöldinu 28. febrúar sl., líkt og fram kom á mynd í eftirlitsmyndavél, en nú er talið, vegna framkomna símagagna, að hann hafi farið til Kópavogs í framhaldinu og verið þar á ferð snemma aðfaranætur miðvikudagsins 1. mars.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði fjöldskylda Arturs að hann hefði tekið út alla þá fjárhæð sem hann átti á reikningi sínum sama daga og hann hvarf. Guðmundur Páll segir það vera rétt en að fjárhæðin sé óveruleg.

Artur, sem er 25 ára og grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sm á hæð og með græn augu, er pólskur, en hefur búið á Íslandi um allnokkurt skeið. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

Óska eftir upplýsingum úr síma Arturs

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fram á úrskurð héraðsdóms um að fá upplýsingar úr síma Artur Jarmoszko. Ekkert hefur spurst til Arturs frá miðnætti 1.mars er hann sást í öryggismyndavél 1. mars síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×