Innlent

Leitin að Arturi: Bátur Landhelgisgæslunnar skoðar sjávarbotninn betur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
„Það var lítið leitarverkefni eftir hádegið sem sneri að því að endurleita ákveðið svæði sem var leitað í gær  í kringum Nauthólsvík og Kópavoginn sjálfan. Hins vegar erum við með bát sem Landhelgisgæslan stjórnar sem er að fara þarna með tæki til að skoða botninn betur,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, um leitina að Arturi Jarmoszko en lýst var eftir honum í liðinni viku.

Skipulögð leit björgunarsveitarfólks hófst um helgina en seinast sást til Arturs rétt fyrir miðnætti þann 1. mars síðastliðinn. Fyrst var lýst eftir honum þann 9. mars en leitin hefur ekki enn borið árangur. Þannig hafa engar vísbendingar sem tengja má við hvarf Arturs fundist í dag.

Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar frá því í dag segir að málið sé rannsakað sem mannshvarf og að ekki sé grunur um refsiverða háttsemi. Fólk er beðið um að svipast um í sínu nærumhverfi, til dæmis í vinnuskúrum, geymslum og útihúsum.

Artur, sem er 25 ára og grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sm á hæð og með græn augu, er pólskur, en hefur búið á Íslandi um allnokkurt skeið. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar verður fjallað um leitina í kvöldfréttum Stöðvar 2.


Tengdar fréttir

Nýta lágfjöru til leitar að Arturi

Leit að Arturi Jarmoszko, 25 ára karlmanni frá Póllandi, mun hefjast að nýju í hádeginu í dag. Leitað verður á sama svæði og í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×