Innlent

Hundar, bátar, þyrla og fjöldi fólks að störfum við leitina að Arturi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. Vísir/Friðrik Þór
Um fimmtán til tuttugu björgunarsveitarmenn koma nú að leit að Arturi Jarmoszko, 25 ára karlmanni frá Póllandi. Leitarmenn nýta sér nú lágfjöru á svæðinu frá Nauthólsvík að Kópavogshöfn og freista þess að finna ummerki eftir Artur eða vísbendingar sem gagnast geti við rannsókn á hvarfi Arturs.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að fjöldi þeirra sem komi að leitinni helgist af því að ekki þurfi marga til þess að leita á því svæði sem um ræðir. Gönguhópar ganga fjörurnar á svæðinu auk þess sem að björgunarsveitamenn á bátum koma að leitinni.  Þá er hundateymi á leiðinni á vettvang til þess að aðstoða við leitina og þyrla Landhelgisgæslunnar sveimar yfir leitarsvæðinu.

Ekkert hefur spurst til Arturs frá 1. mars og í samtali við Vísi fyrr í dag sagði Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi sem stýrir rannsókn málsins að engar nýjar vísbendingar hefðu borist í dag. Ástæða þess að leitað er á því svæði sem um ræðir er að símagögn úr farsíma Arturs benda til þess að sími hans hafi komið inn á farsímasendi í vesturbæ Kópavogs.

Málið er rannsakað sem mannshvarf og ekki er grunur um refsiverða háttsemi.

Talið er að Artur sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, í bláum gallabuxum og í hvítum strigaskóm. Hann er grannvaxinn, 186 sentimetrar á hæð, með græn augu og stutt, dökkt hár.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

Nýta lágfjöru til leitar að Arturi

Leit að Arturi Jarmoszko, 25 ára karlmanni frá Póllandi, mun hefjast að nýju í hádeginu í dag. Leitað verður á sama svæði og í gær.

Óska eftir upplýsingum úr síma Arturs

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fram á úrskurð héraðsdóms um að fá upplýsingar úr síma Artur Jarmoszko. Ekkert hefur spurst til Arturs frá miðnætti 1.mars er hann sást í öryggismyndavél 1. mars síðastliðinn.

Allt kapp lagt á leit að Arturi

Formleg leit hófst í dag að Arturi Jarmoszko, 25 ára karlmanni frá Póllandi, og leituðu hátt í 70 björgunarsveitarmenn á stóru svæði í kring um vesturbæ Kópavogs. Ekkert hefur spurst til Arturs síðan um mánaðamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×