Innlent

Skiptar skoðanir um jafnlaunavottun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra mun leggja frumvarpið fram. Það er nú í smíðum í velferðarráðuneytinu.
Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra mun leggja frumvarpið fram. Það er nú í smíðum í velferðarráðuneytinu. vísir/ernir
Ráðgert er að frumvarp um jafnlaunavottun verði lagt fram á Alþingi í mars. Frumvarpið mun ná til fyrirtækja og stofnana með 25 starfsmenn eða fleiri. Enn er verið að móta útfærslu frumvarpsins i ráðuneytinu.

Á meðal þess sem er til skoðunar í þessari vinnu eru mismunandi útfærslur eftir stærð vinnustaða og sömuleiðis mismunandi gildistíma. Kveðið er á um jafnlaunavottun i stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Anna Kristín Kristjánsdóttir, meðeigandi i Hvíta húsinu.
Sú ákvörðun að knýja fyrirtækin til að taka upp slíka jafnlaunavottun hafa vakið blendin viðbrögð í atvinnulífinu.

„Við erum sannfærð um að þetta sé til góðs. Það græða flestir sem fara í jafnlaunavottun á henni. En það er nú eiginlega bara frumskilyrði að menn geri það að eigin frumkvæði og af því að þeir sjá hag í því,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. 

Auglýsingastofan Hvíta húsið hefur nýlega tekið upp jafnlaunavottun. Anna Kristín Kristjánsdóttir, stjórnarmaður í fyrirtækinu og einn eigenda, segir að kostnaður fyrirtækis við að taka upp slíka vottun sé 2 milljónir króna hið minnsta.

„Það eru örfá fyrirtæki af þessari stærðargráðu með mannauðsstjóra. Og sú ákvörðun að fara í svona verkefni með engan mannauðsstjóra er áskorun i sjálfu sér,“ segir hún.

Verkefnið tók um það bil ár hjá Hvíta húsinu. Anna segir nauðsynlegt að það sé hvetjandi en ekki íþyngjandi að taka upp slíka jafnlaunavottun.

„Í okkar tilfelli var þetta sannarlega hvetjandi en það var okkar val að ráðast í verkefnið,“ segir Anna Kristín.

Þótt ráðgert sé að Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra leggi frumvarpið fram sem stjórnarfrumvarp er alls óvíst að það njóti stuðnings meirihluta þingmanna Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins því að minnsta kosti tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst efasemdum um það.

Dómsmálaráðherra, Sigríður Andersen, hefur lýst efasemdum um að raunverulegur launamunur kynja sé fyrir hendi. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Svona lítur stjórnarsáttmálinn út

Formenn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undirrituðu sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf í Gerðarsafni í Kópavogi í dag klukkan 14:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×